Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Fréttir

Tíu íbúðir fyrir tekjulága byggðar í Grindavík
Skóflustunguna tóku (f.v.) Sigurður Óli Þorleifsson, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, tveir fulltrúar frá Bjargi, Hlynur Helgason frá HH smíði sem sér um verkið, Fannar Jónasson, bæjarstjóri, og Hafdís Helgadóttir frá Verkalýðsfélagi Grindavíkur.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 13. janúar 2022 kl. 06:36

Tíu íbúðir fyrir tekjulága byggðar í Grindavík

Fyrsta skóflustungan að nýju leiguhúsnæði Bjargs íbúðafélags í Grindavík var tekin síðasta föstudag. Um er að ræða langtímaleiguhúsnæði fyrir tekjulága einstaklinga og er stefnt að því að koma þeim í leigu í janúar á næsta ári. 

Bæjaryfirvöld hafa í töluverðan tíma reynt að koma því í kring að Bjarg byggi upp íbúðir í Grindavík en skóflustungan var tekin á lóð á nýju Víkurhópssvæði í Hópshverfi. Í júlí 2020 staðfesti Grindavíkurbær 12% stofnframlag til byggingar á íbúðunum sem verða staðsettar við Víkurhóp 57. Áætlaður heildarkostnaður er 326.861.326 kr. og hlutur Grindavíkurbæjar 39.223.359 kr. að meðtöldum gatnagerðargjöldum, tengigjöldum og byggingarleyfisgjöldum sem teljast hluti af stofnframlagi bæjarfélagsins. 

Public deli
Public deli

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Félagið hefur vaxið mikið undanfarin ár og byggt upp fjölda íbúða víða um land.

Að sögn Þrastar Bjarnasonar, verkefnisstjóra hjá Bjargi, er stefnt að því að auglýsa úthlutun eftir um tvo mánuði. Gert er ráð fyrir að afhending íbúða verði í byrjun ársins 2023. Þröstur segir að vel komi til greina að byggja fleiri íbúðir verði eftirspurnin mikil.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir þessa framkvæmd ánægjuefni því skortur hafi verið á leiguíbúðum í bæjarfélaginu. Um er að ræða tíu íbúðir, frá tveggja herbergja upp í fjögurra herbergja, langtíma og örugga leigu fyrir þá sem fá leigusamning. Leigan er þó háð tekjumörkum og fólk þarf að vera búið að vera á atvinnumarkaði og greiða í stéttarfélag að lágmarki í tvö ár. Biðlisti sé í gangi að íbúðum Bjargs en heimafólk njóti ákveðins forgangs.