ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Fréttir

Skólaslit fengu hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar
Skólastjórar og kennsluráðgjafarnir Kolfinna og Anna Hulda tóku við verðlaunum fyrir Skólaslit. Þær eru hér saman ásamt Valgerði Björk, formanni fræðsluráðs. VF-mynd: pket
Laugardagur 18. júní 2022 kl. 08:44

Skólaslit fengu hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar

Mikil gróska í fjölbreyttum verkefnum í skólunum

Verkefnið Skólaslit hlaut hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar 2022 en þau voru afhent í Duus Safnahúsum síðasta fimmtudag. Fern önnur verkefni fengu viðurkenningu.

„Það er svo sannarlega traustvekjandi, sérstaklega fyrir mig sem foreldri tveggja barna sem eru að hefja grunnskólagöngu sína, að sjá að starfsfólk skólanna hér í Reykjanesbæ er sífellt að leita nýrra leiða til þess að virkja áhuga barna á m.a. listsköpun, forritun, heilsu og íþróttum, stærðfræði, frjálsum leik og auðvitað lestri,“ sagði Valgerður Björk Pálsdóttir, formaður fræðsluráðs Reykjanesbæjar, m.a. í ræðu sinni við afhendingu verðlaunanna. 

Valgerður sagði að upphaf verkefnisins megi rekja til byrjun árs 2021 þegar kennsluráðgjafarnir Kolfinna Njálsdóttir, Heiða Ingólfsdóttir og Anna Hulda Einarsdóttir, á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, áttu samtöl um þá áskorun sem grunnskólakennarar standa frammi fyrir þegar kemur að lestraráhuga nemenda og þá sér í lagi hjá drengjum. „Sú umræða um áskorunina að kveikja og viðhalda lestraráhuga hjá drengjum og í raun öllum nemendum hefur verið fyrirferðamikil í okkar samfélagi. Skólaárið á undan höfðu verið tekin rýnihópasamtöl við kennara á yngsta- og miðstigi grunnskóla um gagnlegar aðferðir, námsmat, námsefni og hvernig er hægt að efla lestur, lestraránægju og lesskilning. 

Niðurstöður þessara samtala leiddi af sér samstarf við Ævar Þór Benediktsson, rithöfund og leikara, sem skrifaði svo sögu í rauntíma, nýjan kafla á hverjum degi í október 2021 sem birtist í texta og hljóði á heimasíðunni skólaslit.is. Samhliða því myndskreytti Ari Hlynur Yates söguna. Á heimasíðunni var gagnvirkur verkefnabanki, veggspjöld og bókamerki til útprentunar. Þar mátti einnig finna kynningarmyndbönd og fleira sem nýttist skólum við framkvæmd verkefnisins. Netfang var notað til að taka á móti spurningum nemenda og hugmyndum þeirra um þróun sögunnar en að sögn höfundar var reynt að taka tillit til athugasemda nemenda á meðan sagan var skrifuð.  Í gegnum netfangið tengdust grunnskólar víða um land og telst til að rúmlega hundrað skólar hafi tekið þátt í verkefninu að hluta til eða öllu leyti. 

Hér í Reykjanesbæ tóku skólarnir virkan þátt í verkefninu á fjölbreyttan hátt, til dæmis voru Hrekkjavökuhátíðir haldnar þar sem nemendur og kennarar klæddu sig upp sem sögupersónur Skólaslita og í einum skóla byggðu nemendur allt þorpið í sögunni í tölvuleiknum Mine-craft.  Sagan Skólaslit verður síðan gefin út af höfundi í bókaformi nú í haust og verður spennandi að sjá söguna verða að alvöru bók,“ sagði formaður fræðsluráðs sem afhenti síðan sigurvegurunum hvatningarverðlaunin.

Ævar Þór, Kolfinna, Anna Hulda og Helgi fræðslustjóri við upphaf Skólaslita.


Fern verkefni fengu viðurkenningu

Frá afhendingu hvatningarverðlaunanna í bíósal Duus.


Lestararvinna í Heiðarskóla. Að því verkefni standa María Óladóttir, Ingunn Rós Valdimarsdóttir og Guðbjörg Pálmadóttir. Þær mynda lestrarteymi Heiðarskóla sem hefur það hlutverk að halda utan um lestrarkennslu, koma með hugmyndir sem efla færni og áhuga nemenda á lestri og vera kennurum í skólanum til halds og trausts. Síðastliðið ár var áherslan á lotuþjálfun og yndislestur en ýmsar nýstárlegar leiðir voru farnar til að vekja áhuga barnanna á yndislestri og hvetja þau áfram, m.a. fengu nemendur poppbaun fyrir hverjar fimm mínútur sem þau lásu og í lok lestrarátaks var þeim öllum safnað saman og haldið popp-partý.

Mylluvísjón. Verkefni í Myllubakkaskóla undir stjórn Írisar Drafnar Halldórsdóttur, Hildar Maríu Magnúsdóttur og Tinnu Aspar Káradóttur. Söngkeppnin Mylluvísjón hefur verið haldin í fimmtán ár og þar stíga nemendur á svið og syngja lag að eigin vali við undirleik. Nemendur fá eina æfingu fyrir stóru stundina en þetta er samstarfsverkefni heimilis og skóla þar sem foreldrar aðstoða barn sitt við að  finna undirspil og æfa það í sviðsframkomu. Ef foreldrar sjá sér ekki fært að aðstoða fá þeir nemendur sem þess þurfa aðstoð frá starfsfólki. Þetta er gert til að allir upplifi jöfn tækifæri. Í ár voru keppendur alls þrjátíu og þrír í 26 atriðum og allir stóðu stoltir á sviði og sýndu sönghæfileika sína. 

List og saga. Verkefni á vegum Sigitu Andrijauskiene í Öspinni í Njarðvíkurskóla. Nemendur í Öspinni hafa verið í Listasmiðju í vetur. Það eru teknir fyrir margar þekktar listastefnur og listamenn sem tilheyra hverri stefnu, öll verkefni hafa byrjað á því að nemendur fá fræðslu um viðfangsefnin og búa svo til listaverk í anda þeirra. Sigita er með mjög ólíkan hóp nemenda í kennslustundum og hefur náð að útfæra kennsluna og verkefnin fyrir hvern og einn nemanda. Verkin hafa prýtt ganga Asparinnar í vetur og nokkur þeirra voru til sýnis á listasýningu barna og menningarhátíðar nýlega hér í Duus. 

Söngleikurinn Grís. Verkefni undir stjórn Guðnýjar Kristjánsdóttur, Daníellu H. Gísladóttur og Estherar Níelsdóttur. Söngleikurinn Grís var frumsýndur á árshátíð Heiðarskóla þann 18. mars. Leikhópurinn samanstóð af 21 nemanda í 8.–10. bekk sem valið höfðu valgreinina Árshátíðarleikrit. Í leiklist fá nemendur kennslu í að koma fram, að setja sig í spor annarra og prófa sig áfram með mismunandi tjáningarform. Sýningar voru haldnar fyrir nemendur á  skólatíma auk sýninga fyrir foreldra, opinna sýninga og styrktarsýningar þar sem ágóðinn rann til Krabbameinsfélag Suðurnesja.