Blik í auga
Blik í auga

Fréttir

Reykjanesbær og Vogar ætla að verða  Barnvæn sveitarfélög
Frá athöfninni í Reykjanesbæ að ofan. Neðri myndin var tekin þegar samningurinn var undirritaður í Vogum. VF-myndir: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 25. júní 2020 kl. 15:01

Reykjanesbær og Vogar ætla að verða Barnvæn sveitarfélög

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi undirrituðu í dag samstarfssamninga um verkefnið Barnvæn sveitarfélög við Kjartan Má Kjartansson, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, og Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóra Voga. Með undirritununum bætast Reykjanesbær og Vogar við myndarlegan og sístækkandi hóp sveitarfélaga sem hefja nú vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í stjórnsýslu sína með stuðningi félagsmálaráðuneytisins og UNICEF á Íslandi.  Eru sveitarfélögin orðin tíu talsins sem eru í þessu ferli.

Þátttaka Reykjanesbæjar og Voga í Barnvænum sveitarfélögum er liður í að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi og auknu samstarfi milli ríkis og sveitarfélaga.

Öll sveitarfélög verði Barnvæn sveitarfélög

Akureyrarbær hóf vinnu við að verða Barnvænt sveitarfélag árið 2016, og varð í lok maí fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að hljóta þá viðurkenningu.  Áhugi á þátttöku í verkefninu hefur verið mikill og biðlistar myndast þar sem UNICEF hefur hingað til ekki getað annað eftirspurn áhugasamra sveitarfélaga. Þann 18. nóvember 2019, í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gengu félags- og barnamálaráðherra og UNICEF á Íslandi til samstarfs við framkvæmd verkefnisins undir formerkjum Barnvæns Íslands. Markmið samstarfsins er að tryggja aðgengi allra sveitarfélaga að stuðningi við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á næstu tíu árum. Á næstu tveimur árum er stefnt að því að vel á annan tug sveitarfélaga bætist í hópinn. Félagsmálaráðuneytið og UNICEF á Íslandi sendu öllum sveitarfélögum landsins nýverið formlegt erindi með boði um þátttöku og hafa viðtökur verið vonum framar.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það bætist enn í hóp Barnvænna sveitarfélaga og nú þegar Reykjanesbær og Vogar hafa bæst í hópinn eru alls tíu sveitarfélög á landinu sem hafa nú hafið vinnu við að innleiða Barnasáttmálann. Ég er mjög ánægður að sjá hversu mörg sveitarfélög  hafa tekið þátt í þessu verkefni með okkur og vinna markvisst að því að tryggja réttindi barna enn frekar hér á landi.“

Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga:  Fyrir Sveitarfélagið Voga er dýrmætt að fá tækifæri til að taka þátt í verkefninu Barnvænt sveitarfélag. Við erum þess fullviss að það muni skila íbúum sveitarfélagsins, ekki síst börnunum, raunverulegum árangri sem undirstrikar áherslur okkar á mikilvægi þess að samfélagið okkar sé barnvænt í alla staði. Við finnum til mikillar ábyrgðar og þökkum það traust sem okkur er sýnt með því að taka þátt í verkefninu. Innleiðingarferlið framundan verður spennandi vegferð, þar sem við munum gera okkur far um að vanda vel til verka og huga vel að öllum þáttum. Hér í sveitarfélaginu eru nú samtals 282 börn búsett, sem er um 22% af íbúafjöldanum. Það er mikilvægt að halda vel utan um þennan hóp og tryggja með öllum ráðum að samfélagið okkar hlúi vel að framtíðarkynslóðinni. Innleiðing Barnasáttmálans og þátttaka í verkefninu Barnvænt sveitarfélag er þýðingarmikið skref í rétta átt.“

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanessbæjar: „Reykjanesbær hefur sett sér metnaðarfulla stefnu til ársins 2030 þar sem eitt af stefnuáherslum er að styðja við börn svo þau megi blómstra í fjölskyldunni, skólum, íþróttum og tómstundum til að auka kraft samfélagsins. Innleiðing Barnasáttmálans fellur mjög vel að þeirri stefnu en í barnvænu sveitarfélagi er lögð áhersla á að tryggja umhverfi barns, viðhorf, taka mið af þörfum og hagsmunum barna og að stjórnsýsla og þjónusta sé barnvæn.“

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi: „Það er mér mikil ánægja að ýta verkefninu barnvænt sveitarfélag úr vör í Reykjanesbæ og Vogum. Þessi sveitarfélög sýna mikinn metnað og eldmóð að vilja nota Barnasáttmálann sem leiðarljós í sínum störfum til að bæta þjónustu við íbúa og auka lýðræðislega þátttöku ungmenna. Við hjá UNICEF hlökkum til að styðja þau á þessu ferðalagi og sjá þau innleiða verkefnið á sinn einstaka hátt.“

Nánari upplýsingar um Barnvæn sveitarfélög eru aðgengilegar á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans.