Rekstur Suðurnesjabæjar 2024 fór langt fram úr væntingum
Jákvæð niðurstaða upp á 376 milljónir
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2024 var samþykktur samhljóða í bæjarstjórn þann 7. maí og staðfestir hann mjög góða rekstrarniðurstöðu – langt umfram það sem fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.
Rekstrarniðurstaða samantekinna reikninga A- og B-hluta sveitarfélagsins var jákvæð um 376 milljónir króna, samanborið við áætlaðar 67 milljónir. Fyrir A-hluta bæjarsjóðs var niðurstaðan 322 milljónir, en aðeins var gert ráð fyrir 69 milljónum.
Sterkur rekstur og aukið veltufé
Veltufé frá rekstri nam 879 milljónum, sem er um 12% af rekstrartekjum, og fjárfest var fyrir 975 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum. Ný langtímalán námu 425 milljónum en handbært fé hækkaði um 170 milljónir og var 718 milljónir í lok árs.
Skuldaviðmið sveitarfélagsins lækkaði úr 65,4% í 62,3% og er vel innan þeirra marka sem lög kveða á um (150%). Þá uppfyllir Suðurnesjabær jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga með jákvæðri rekstrarniðurstöðu þriggja ára í samanteknum reikningum.
Íbúum fjölgaði um 5% á árinu
Í lok árs 2024 voru 4.091 íbúi skráður í Suðurnesjabæ samkvæmt Hagstofu Íslands, sem er fjölgun um 194 einstaklinga frá árslokum 2023, eða 5%.
Rekstur málaflokka í A-hluta var nánast samkvæmt áætlun en niðurstaða í B-hluta og hjá Eignasjóði reyndist betri en áætlað var. Allt bendir til þess að Suðurnesjabær standi á traustum fjárhagslegum grunni með vaxandi íbúafjölda og öfluga innviði.