Fréttir

Mestu snjóþyngsli í fimmtán ár
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 20. janúar 2023 kl. 06:23

Mestu snjóþyngsli í fimmtán ár

Kostnaður Reykjanesbæjar 60 milljónir króna á einum mánuði

Óvenju mikið fannfergi hefur sett strik í reikning Reykjanesbæjar að undanförnu en ætla má að kostnaður við snjómokstur og -losun í bænum hafi verið um 60 milljónir króna síðasta mánuð.

Gunnar Ellert Geirsson, deildarstjóri umhverfismála hjá Reykjanesbæ, segir að á síðasta ári hafi heildarkostnaður vegna snjómoksturs verið 75 milljónir króna, þar af greiddi Reykjanesbær verktökum um 33 milljónir króna á tímabilinu 17. til 31. desember. „Þessar tölur eru samkvæmt þeim reikningum sem höfðu borist um síðustu mánaðamót en við áætlum að kostnaðurinn í janúar sé nú kominn í um 25 milljónir. Meginmunurinn á vinnunni í desember og janúar er að í desember einbeittum við okkur fyrst og fremst að því að opna og halda akstursleiðum opnum, núna er snjólosun aðallega í gangi en sú vinna er bæði tíma- og mannaflsfrek.“ Hann bætir við að snjómokstur á seinni hluta síðasta vetrar hafi verið búinn að fylla upp í þau framlög sem voru áætluð til moksturs á árinu 2022. „Þannig að þegar það byrjaði að snjóa 17. desember þá var búið að sprengja þennan lykil,“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Gunnar bendir á að önnur eins snjóþyngsli hafi ekki verið á Suðurnesjum síðan 2008. „Þá voru verktakar líka betur í stakk búnir, tækjalega séð. Stórvirkar traktorsgröfur gátu þá rutt allt sem á vegi þeirra varð en núna búa verktakar yfir vélum sem henta ekki eins vel og eru ekki jafn afkastamikil í snjóruðningi og snjómokstri. Þannig að í dag stendur sveitarfélögum einungis til boða tæki sem ráða ekki jafn vel við aðstæður þegar svona ástand skapast – og við borgum jafn mikið en fyrir minni afköst en áður.“ Hann bendir einnig á að á sama tíma hafi Vegagerðin afskrifað þau tæki sem áður fyrr sáu um að halda Reykjanesbrautinni opinni og sé ekki með nægilega öfluga snjóplóga í dag til að tryggja samgöngur milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins. „Öflugu tækin sem skófu og söltuðu brautina á milli Hafnarfjarðar og flugstöðvarinnar eru ekki lengur til – þannig er staðan á Suðurnesjum í dag.“

Að sögn Gunnars Ellerts er aðaláhersla í snjómokstursmálum Reykjanesbæjar í dag að tryggja gönguleiðir barna milli skóla og afþreyingar. „Við þurfum fyrst og fremst að tryggja öryggi barnanna okkar í umferðinni og því er mesta áherslan á að greiða leið þeirra til að geta stundað skóla og tómstundir. Samhliða því reynum við eftir fremsta megni að hreinsa íbúagötur.“

Asahláka í kortunum

Veðurstofa Íslands spáir stífri sunnanátt næstkomandi föstudag og að hitinn muni hækka um sextán gráður frá hádegi fimmtudags til föstudags (fari úr -8°C í +8°C), samhliða þessum veðrabreytingum er spáð ausandi rigningu. Því vildi Gunnar Ellert jafnframt koma á framfæri til íbúa að framundan sé spáð asahláku og því mikilvægt að gera viðeigandi ráðstafanir til að forðast tjón af þess völdum. „Nú er rétti tíminn til að opna fyrir niðurföll og reyna að koma í veg fyrir að vatn eigi greiða leið inn í híbýli fólks,“ sagði hann að lokum.