HS Veitur
HS Veitur

Fréttir

Lýsa yfir furðu sinni og gríðarlegum vonbrigðum
Ljósmynd af vef stjórnarráðsins.
Mánudagur 29. nóvember 2021 kl. 09:42

Lýsa yfir furðu sinni og gríðarlegum vonbrigðum

Stjórnir fulltrúaráða sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum, Árnessýslu, Austur-Skaftafellssýslu, Gullbringusýslu og Grindavík hafa samþykkt sameiginlega ályktun vegna skipan ráðherra í nýja ríkisstjórn:

Ályktun sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi varðandi ráðherraskipun

Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi lýsa yfir furðu sinni og gríðarlegum vonbrigðum með að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hafi hundsað forystumann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, í ráðherravali sínu.
Vægi landsbyggðarinnar er vægast sagt fyrir borð borið með úthlutun ráðherrastóla í komandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn gefur sig út fyrir að vera flokkur allra landsmanna og ætti að sýna það í gjörðum sínum.

Það að veita Guðrúnu Hafsteinsdóttur ráðuneyti einungis hluta kjörtímabilsins er eins og blaut tuska í andlitið á þeim þúsundum kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og öllum þeim hundruðum sjálfboðaliða sem tóku þátt í að tryggja glæst gengi flokksins.

Við Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi krefjumst þess af formanni Sjálfstæðisflokksins Bjarna Benediktssyni að fá frekari útskýringar á þessari ákvörðun.Ályktun samþykkt af:

Stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ,
stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum,
stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Árnessýslu,
stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Austur- Skaftafellssýslu,
stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Gullbringusýslu,
stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Grindavík.