Fréttir

Lið Menntaskólans á Ásbrú áberandi í úrslitakeppni Ungra frumkvöðla
Sunnudagur 16. maí 2021 kl. 07:09

Lið Menntaskólans á Ásbrú áberandi í úrslitakeppni Ungra frumkvöðla

Tvö lið frá Menntaskólanum á Ásbrú eru komin í úrslitakeppni Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla sem haldin er árlega á vegum samtakanna Ungir frumkvöðlar á Íslandi. Keppnisliðin unnu verkefnin í tengslum við frumkvöðlaáfanga sem er hluti af námi til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð við skólann.

Í Fyrirtækjasmiðjunni stofna nemendur og reka eigið fyrirtæki auk þess að vinna að viðskiptahugmynd á þrettán vikna námskeiði sem miðar að því að efla skilning þeirra á fyrirtækjarekstri. Þátttakendur fjármagna stofnun fyrirtækis með sölu hlutabréfa, ráða í stöðugildi og búa til ítarlega viðskiptaáætlun sem er hrint í framkvæmd og taka þátt í vörusýningu að því loknu. Fyrirtækið að lokum gert upp með ársreikningi og skýrslu í lok tímabilsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Báru Bræður og Black Sky Games fulltrúar MÁ

Alls voru tuttugu keppnislið frá níu framhaldsskólum valin í lokaumferð keppninnar og eins og áður kom fram voru tvö þeirra frá Menntaskólanum á Ásbrú, Báru Bræður með hugmyndina um Báruskaftið og Black Sky Games með leikinn Total Chaos.

Bárubræður sendu inn hugmyndina að Báruskaftinu kom þegar einn liðsfélaganna var að vinna við að losa járn af fjárhúsi sem átti að rífa. Mikið af járninu var nýlegt og var því sóun að skemma bárurnar á því það með því að nota kúbein og hamar. Því var farið í þróunarvinnu að finna lausn á því hvernig væri hægt að losa upp naglana án þess að beygla járnið. Úr þessari vinnu leit Báruskaftið dagsins ljós.

Verkfærið virkar þannig að tveir sívalingar leggjast upp að bárunum á járninu og rúlla með þegar verkfærinu er þrýst niður til að losa naglann. Með þessu myndast vörn sitthvoru megin við báruna svo átakið þrýsti henni ekki niður. Langt skaftið á Báruskaftinu auðveldar svo alla vinnu og hlífa líkamanum því ekki þarf að liggja á hnjánum eða vera í beygju við vinnuna. Á tímum þar sem verndun umhverfis er mikil og vakning er á því að endurnýta hluti kemur Báruskaftið sterkt inn. Þegar skipt er um þak af húsi er járnið oftar en ekki heilt nema á köntum og álagspunktum. Þetta járn er hægt að nýta aftur til annara verka, t.d. á geymsluskúra og fleira.

Liðið Black Sky Games þróaði leikinn Total Chaos sem er nýr „online multiplayer“ leikur. Hugmyndin með leiknum var að hanna bjartan og skemmtilegan leik sem að hentar öllum aldurshópum. Liðið lagðist fyrst í mikla rannsóknarvinnu þar sem hópurinn skoðaði gamla leiki í sama stíl sem höfðu orðið stórir í tölvuleikjaheiminum. Þá var reynt að setja puttann á það sem gerði þá svona fræga. Niðurstaðan var að lykillinn að góðum leik sé samspilið milli spilara, sem var uppsprettan af Total Chaos.

Markmiðið með Total Chaos er að gera fjörugan og einfaldan leik fyrir alla aldurshópa þar sem spilarar geta bæði spilað með vinum sínum eða ókunnugum. Leikurinn inniheldur þrjár þrautir sem eru fjölbreyttar og reyna allar á mismunandi getu spilarans.

Fjölbreytt nám sem tengist meira en tölvuleikjagerð

Menntaskólinn á Ásbrú býður upp á nám til stúdentsprófs með áherslu á tölvuleikjagerð en þó svo að meginstefið sé gerð tölvuleikja er námið fjölbreytt og höfðar til einstaklinga sem hafa áhuga á að virkja hugmyndaauðgi og sköpunargleði í framtíðarnámi og -störfum. Það er í þessu samhengi sem áfanginn í frumkvöðlafræðum er mikilvægur hluti námsins.

„Þetta er frumraun MÁ í keppni Ungra frumkvöðla og hefur gengið framar vonum,“ segir Anna Albertsdóttir, kennari við Menntaskólann á Ásbrú. „Frumkvöðlafræðin er áfangi sem æfir nemendur í nýsköpun og frábært tækifæri fyrir þau að fá að upplifa að sjá hugmynd lifna við setja hana á markað og frábær reynsla að fá að taka þátt í svona keppni. Nemendur taka áfanga í markaðsfræði á fyrsta ári sem undirbýr þau að einhverju leyti fyrir frumkvöðlafræðina en þau fá alveg frjálsar hendur með hugmyndavinnu í áfanganum og sjá algjörlega um ferlið sjálf.“

Samkvæmt Önnu er hún einungis á hliðarlínunni og leiðbeinir nemendum í keppninni. Þá sér hún til þess að þau geri góða viðskiptaáætlun áður en þau hrinda hugmyndinni í framkvæmd. „Það komu margar frábærar hugmyndir hjá okkur. MÁ er einn af þrettán framhaldsskólum sem tóku þátt í ár og voru alls 125 fyrirtæki stofnuð. Að ná tveimur fyrirtækjum inn í tuttugu liða úrslit er ótrúlegur árangur hjá okkar fólki.“

Námið í Menntaskólanum á Ásbrú byggir á hagnýtum verkefnum með sterkum tengslum við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa. Markmið skólans er að bjóða upp á nám í tölvuleikjagerð sem svarar bæði ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki og áhuga ungs fólks á menntun til starfa í skapandi greinum.