Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Iðgjald NTÍ hækkar um 50% vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga
Ljósmynd: Golli
Miðvikudagur 27. nóvember 2024 kl. 12:45

Iðgjald NTÍ hækkar um 50% vegna náttúruhamfara á Reykjanesskaga

Alþingi samþykkti nýverið breytingu á lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) sem felur í sér heimild stofnunarinnar til þess að hækka iðgjöld tímabundið um 50%.

Atburðirnir, sem átt hafa sér stað á Reykjanesskaga undanfarið, hafa haft veruleg áhrif á fjárhagslega stöðu NTÍ. Stofnunin þarf á hverjum tíma að eiga fjármuni til að greiða bætur vegna tjóns á húseignum, innbúi og öðru lausafé sem vátryggt er hjá NTÍ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heimild til hækkunar á iðgjöldum NTÍ verður nýtt og frá og með 1. janúar 2025 og verða þau innheimt með 50% álagi samhliða brunatryggingariðgjöldum. Iðgjald fyrir húseignir, innbú og annað lausafé fer úr 0,025% í 0,0375% af vátryggingarfjárhæð.

Sem dæmi um áhrif þessara breytinga mun iðgjald til NTÍ af 80 milljón króna eign hækka úr kr. 20.000 á ári í kr. 30.000 á ári og iðgjald af innbústryggingu á 20 milljón króna innbúi mun hækka úr kr. 5.000 í kr. 7.500 á ári.

Frekari upplýsingar um iðgjöld er að finna á vef NTÍ, www.nti.is

Nánar um Náttúruhamfaratryggingu Íslands og iðgjöld

Náttúruhamfaratrygging Íslands er opinber stofnun sem hefur það hlutverk að vátryggja húseignir og brunatryggt lausafé, þ.m.t. innbú, gegn tjóni af af völdum jarðskjálfta, eldgosa, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. 

Meðal þeirra gjalda sem innheimt eru samhliða brunatryggingaiðgjöldum hjá almennu vátryggarfélögunum (Sjóvá, TM, Verði og VÍS) er lögbundið iðgjald sem rennur til Náttúrhamfaratryggingar Íslands (NTÍ). Iðgjaldið hefur í áratugi verið innheimt óháð áhættu, af eignum um allt land sem fast hlutfall af brunabótamati húseigna og vátryggingarfjárhæðum lausafjár.