ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Fréttir

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja mótmælir ríkisvæðingu eftirlits
Föstudagur 31. október 2025 kl. 09:59

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja mótmælir ríkisvæðingu eftirlits

Telur áformin ganga of langt og veikja áhrif nærsamfélagsins

Heilbrigðisnefnd Suðurnesja lýsir sig alfarið á móti þeim áformum sem liggja fyrir um breytingar á lögum sem snúa að hollustuháttum, mengunarvörnum og matvælaeftirliti. Í umsögn nefndarinnar, sem send var í samráðsgátt stjórnvalda, segir að í stað þess að bæta samræmingu og yfirstjórn málaflokksins sé stefnt að því að gjörbylta kerfinu og ríkisvæða allt eftirlit, án þess að ljóst sé hvaða afleiðingar það muni hafa.

Nefndin bendir á að engin tilraun sé gerð til að skilgreina önnur verkefni heilbrigðiseftirlita, og að boðaðar breytingar muni í reynd draga völd og áhrif frá sveitarfélögum og nærsamfélagi. „Gangi áformin eftir er hætt við að nærsamfélagið missi áhrif sín varðandi leyfisveitingar, t.d. með gerð sértækra starfsleyfisskilyrða,“ segir m.a. í umsögninni.

Þá er gagnrýnt að rökstuddum ábendingum heilbrigðiseftirlita hafi ekki verið svarað og að áformin virðist fyrst og fremst ætlað að sefa áfellisdóma ESA um brotið regluverk, fremur en að leysa undirliggjandi vanda.

Heilbrigðisnefndin bendir jafnframt á að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi ekki krafist þess að heilbrigðiseftirlitin verði lögð niður, heldur einungis gert athugasemdir við utanumhald ríkisins um málaflokkinn.

Í umsögninni segir jafnframt að boðaðar breytingar gangi gegn meginmarkmiðum Árósasamningsins og hefðu í för með sér miðstýringu sem dregur úr lýðræðislegri þátttöku almennings í ákvörðunum sem snúa að umhverfi og heilnæmu lífi.

„Boðaðar breytingar ganga of langt og ná megi betri árangri með umbótum á núverandi kerfi,“ segir að lokum í ályktun nefndarinnar.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk
Dubliner
Dubliner