RNB 17 júní
RNB 17 júní

Fréttir

Hefja uppbyggingu á 60 km² svæði við Keflavíkurflugvöll
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 26. júní 2019 kl. 14:48

Hefja uppbyggingu á 60 km² svæði við Keflavíkurflugvöll

fyrstu skref í átt að mótun Aerotropolis á Suðurnesjum

Nýr kafli er hafinn í þróun skipulags á svæðinu sem umlykur Keflavíkurflugvöll

Hugmyndafræðin byggir á því sem kallast „Aerotropolis“

Meginmarkmiðið að skapa verðmæti, atvinnu og hagsæld fyrir svæðið í heild

Nú þegar hafa fyrirtæki fjárfest fyrir milljarða á svæðinu

Nýr kafli hefst hjá Kadeco, Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf., klukkan 17.00 í dag, miðvikudag, þegar fjármálaráðherra, fulltrúar frá Isavia, Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ skrifa undir viljayfirlýsingu um framtíðarhlutverk félagsins. Í því felst mótun skipulags á svæðinu sem umlykur flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar, þróun þess og landnýtingu til hagsældar fyrir svæðið í heild. Svæðið sem félagið hefur til umsýslu er eitt verðmætasta landsvæði í eigu ríkissjóðs. Það er um 60 ferkílómetrar að stærð en þess má geta að Ásbrú er um 1/60 af því svæði.

„Nú er svo komið að ríkið, sveitarfélögin og Isavia hafa komist að samkomulagi um að vinna eftir þeirri stefnu sem félagið hefur markað um uppbyggingu í kringum Keflavíkurflugvöll. Tækifærin eru gríðarleg og það er mikilvægt að unnið sé ötullega að sameiginlegum hagsmunum svæðisins í heild með það að leiðarljósi að skapa verðmæti, atvinnu og hagsæld,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður Kadeco í tilkynningu.

Kadeco hefur frá upphafi unnið eftir skýrri stefnu sem grundvallast í hugmyndafræði Dr. John Kasarda og kallast „Aerotropolis“. Sú hugmyndafræði byggir á því að skapa megi mikil verðmæti úr landi við flugvöll, svo sem er gert víða erlendis, þar sem alþjóðleg fyrirtæki kjósa að staðsetja sig við vel tengda flugvelli. Bæði vegna möguleika til vörudreifingar en jafnframt til að nýta flugtengingarnar fyrir stjórnendur og starfsfólk. Flugvellir sem hafa rými til að vaxa laða að fjölbreytta atvinnustarfsemi. Þá styrkir öflugur flugvöllur með góðum tengingum innlenda starfsemi með auknum viðskiptatækifærum og atvinnumöguleikum.

„Frá stofnun hefur Kadeco unnið markvisst að því að laða að erlenda fjárfestingu og alþjóðleg fyrirtæki á svæðið með ágætum árangri, með Aerotropolis hugmyndafræðina að leiðarljósi. Starfsemi þeirra fyrirtækja sem sótt hefur verið hvað harðast eftir hefur verið greind með tilliti til stefnu Kadeco um hvers konar starfsemi er ákjósanlegust á svæðinu. Gagnaver Verne Global og þörungaverksmiðja Algalíf eru kannski skýrustu dæmin um slík fyrirtæki en þau skara framúr á alþjóðlegum mælikvarða á sínu svæði. Þau hafa fjárfest fyrir milljarða króna og verið sannur fengur fyrir svæðið,“ segir Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Kadeco í tilkynningunni.

„Fleiri fyrirtæki af þessum skala, sem og hótelkeðjur, dreifingaraðilar og hátæknifyrirtæki munu kjósa að staðsetja sig við Keflavíkurflugvöll ef boðið verður upp á aðlaðandi umhverfi, bæði í eiginlegum og viðskiptalegum skilningi,“ segir Marta.

Kadeco hefur leitt þróun og umbreytingu á gamla varnarliðssvæðinu frá árinu 2006 þegar bandarísk stjórnvöld skiluðu svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Eitt af megin markmiðum félagsins var að koma eignum í borgaraleg not. Á árinu voru síðustu eignir sem félagið fékk til umsýslu seldar og þar með er þeim kafla í sögu félagsins lokið. Verkefnið tókst framar vonum en á Ásbrú búa nú á fjórða þúsund manns og á þriðja hundruð fyrirtæki eru skráð á svæðinu sem skapa á annað þúsund störf.