Rúmfatalagerinn 17.maí
Rúmfatalagerinn 17.maí

Fréttir

Gosrás getur myndast fyrirvaralaust á gönguleiðinni
Gosrás getur opnast án fyrirvara á gönguleiðinni þar sem hún liggur inn í Geldingadali. Ljósmynd: Sigurður Stefánsson
Föstudagur 9. apríl 2021 kl. 11:56

Gosrás getur myndast fyrirvaralaust á gönguleiðinni

Gosrás getur myndast fyrirvaralaust á gönguleiðinni að gosstöðvunum þar sem hún liggur um Geldingadali. Þetta sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur á upplýsingafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í morgun vegna eldgossins í Fagradalsfjalli. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna, sagði að gönguleiðin verði færð.

Það hafi sýnt sig þegar gossprungan hafi opnað sig tvisvar sinnum til norðausturs frá gígunum í Geldingadölum á síðustu dögum að það gerist án nokkurra undanboða. Magnús Tumi sagði að sprungurnar opnist ekki með sprengingu, heldur taki að streyma upp gas og gufa sem getur verið mjög heit eða allt að 1000 gráður. Það sé bæði hættulegt og brennandi.

Sólning
Sólning

Hann segir aðalatriðið að girða fyrir þessa hættu og að ekki sé farið um þau svæði þar sem kvikan á mjög stutt eftir upp á yfirborð. Það þurfi lítið til að fari að gjósa úr kvikuganginum sem liggur m.a. um Geldingadali, þar sem núverandi gönguleið liggur inn í dalinn. Fyrirvarinn sé jafnvel ekki nema mínúta frá því að gas og gufa taki að streyma upp og þar til hraun komi á yfirborð. „Þetta eru aðstæður sem við viljum ekki að fólk lendi í,“ sagði Magnús Tumi á upplýsingafundinum.

Sé fólk á gönguleiðinni þegar gosrás opnist á að forða sér til hliðar. Mikilvægt sé því að færa gönguleiðina sem liggur inn í Geldingadali og nú er unnið að því.