Fréttir

Gatnakerfið í sumargírinn
Hringtorg á mótum Hringbrautar og Þjóðbrautar malbikað. VF-myndir: Hilmar Bragi
Föstudagur 1. júlí 2022 kl. 11:08

Gatnakerfið í sumargírinn

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir í síðustu viku þegar verið var að vinna við malbikunarframkvæmdir í Reykjanesbæ en bæjarbúar hafa orðið varir við vegavinnu að undanförnu.

Víkurfréttir leituðu til Guðlaugs Helga Sigurjónssonar, sviðsstjóra umhverfissviðs bæjarins, og spurðu hann hver staða málaflokksins væri hjá Reykjanesbæ þessa stundina.

„Vegagerðin er núna að ljúka vinna við sinn hluta en þeir eiga að sjá um Reykjanesbrautina og sinna viðhaldi vega sem liggja að höfnum bæjarins,“ sagði Guðlaugur.

„Reykjanesbær fór snemma í sumar í viðhaldsvinnu á götum bæjarins og við höfum staðið í framkvæmdum fyrir 120 milljónir fram til þessa. Nú hafa fallið til aukatekjur í þessum málaflokki og við munum fara í frekara viðhald seinna í sumar, þá með aðaláherslu á Ásbrú og vegkaflann frá Gróf að Helguvík en sá vegur er nú kominn á aðalskipulag.

Það sem hefur helst tafið framkvæmdir er samráðsvinna bæjarins og HS Veitna en meta þarf ástand lagna áður en farið er í að setja nýtt yfirlag á ýmsum stöðum. Ef endurnýja þarf lagnir undir götum bíðum við með að malbika þær en holufyllum þess í stað eftir þörfum.“