Fréttir

Flugvélin rann eftir móa og staðnæmdist við grýttan hól
Myndirnar eru frá vettvangi brotlendingarinnar í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi
Þriðjudagur 1. júní 2021 kl. 11:33

Flugvélin rann eftir móa og staðnæmdist við grýttan hól

Flugvélin sem brotlenti á Keflavíkurflugvelli í morgun er merkt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Vélin er af gerðinni Thrush 510G og var ferðinni heitið frá Íslandi og til Kanada. Vélin var í samfloti við aðra samskonar flugvél. Þær tóku á loft frá Keflavíkurflugvelli um klukkan hálf sjö í morgun en skömmu eftir flugtak tilkynnti flugmaður vélarinnar um vélarbilun.

Flugvélinni var þegar snúið við. Hún náði inn á flugvallarsvæðið en skall til jarðar skammt frá malbikunarstöð sem er innan flugvallarsvæðisins upp af Ósabotnum. Þar rann flugvélin eftir móa um 2-300 metra leið þar sem hún snérist og staðnæmdist. Skammt frá þeim stað sem vélin stoppaði er grýttur hóll og má flugmaðurinn teljast heppinn að hafa ekki hafnað þar.

Eftir að vélin stöðvaðist yfirgaf flugmaðurinn vélina án hjálpar og er sagður óslasaður.

Mikill viðbúnaður var vegna slyssins í morgun. Björgunarlið Isavia var fljótt á vettvang og var eldsneyti dælt af tönkum vélarinnar en flugmaðurinn hafði náð að losa flugvélina við eitthvað af eldsneyti fyrir brotlendingu. Tankar flugvélarinnar voru fullir af eldsneyti þegar farið var í loftið í morgun, enda langt flug framundan vestur um haf.

Flugvélin er mikið skemmd og óvíst að henni verði flogið framar.

Flugvélinni sem fylgdi þeirri sem brotlenti var snúið við og lenti hún á Keflavíkurflugvelli nokkrum mínútum síðar.