Fréttir

Flugatvik á Keflavíkurflugvelli komið til rannsóknarnefndar samgönguslysa
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 31. ágúst 2022 kl. 22:48

Flugatvik á Keflavíkurflugvelli komið til rannsóknarnefndar samgönguslysa

Flugatvik sem varð á Keflavíkurflugvelli kl. 15:54 í dag er komið á borð rannsóknarnefndar samgönguslysa. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Víkurfréttir. Atvikið verður einnig rannsakað hjá Isavia samkvæmt verkferlum.

Ekki fást nánari upplýsingar um atvikið frá Isavia en Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfesti í samtali við Víkurfréttir í kvöld að atvik hafi orðið í dag.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Flugvél Icelandair sem var að koma frá Munchen í Þýskalandi um miðjan dag í dag þurfti að hætta við lendingu á Keflavíkurflugvelli vegna þess að önnur vél frá Icelandair var á flugbrautinni. Vélin tók aukahring og lenti skömmu síðar.

Flugvélin TF-ICB, Boeing 737 MAX-9 að koma frá Munchen í Þýskalandi, var að koma inn til lendingar úr norðri og var í um 425 feta hæð, samkvæmt Flightradar24, þegar hætt var við lendingu og tekin hægri beygja. Vélin kom svo tæpum stundarfjórðungi síðar inn til lendingar úr austri. Á sama augnabliki og vélin frá Munchen tók fráflugið og var TF-FIA, Boeing 757 á leið til Mílan á Ítalíu, að hefja flugtak úr norðri til suðurs. Veðuraðstæður voru ekki góðar á þessum tímapunkti og vindátt að snúa sér.

Flugferill TF-ICB í fyrra og seinna aðflugi vélarinnar í dag.

Flugtaksferill TF-FIA frá Keflavíkurflugvelli í dag. Myndirnar eru skjáskot af Flightradar24 kl. 15:54 í dag.