Blik í auga
Blik í auga

Fréttir

Fjörheimar hljóta styrk frá Lionessunum í Keflavík
Föstudagur 26. júní 2020 kl. 13:18

Fjörheimar hljóta styrk frá Lionessunum í Keflavík

Félagsmiðstöðin Fjörheimar hlaut á dögunum 200 þúsund króna styrk frá Lionessunum í Keflavík. Styrkurinn var notaður til að betrumbæta hljóðver félagsmiðstöðvarinnar og var hljóðverið tekið í gagn á ný síðastliðinn mánudag.

Hljóðver Fjörheima samanstóð áður af tækjum og tólum sem mestmegnis voru í einkaeigu. Styrkurinn frá Lionessunum var því kærkominn og nýttist meðal annars í að kaupa gítarmagnara, hljóðnema, hljóðnemastanda og nýtt hljóðkort fyrir upptökur. Opnun hljóðversins fór vel af stað og til dæmis hefur verið stofnuð ný hljómsveit sem ber nafnið Evil Angels. Hljómsveitin er skipuð nokkrum ungmennum félagsmiðstöðvarinnar.

„Við viljum þakka Lionessunum kærlega fyrir þennan styrk. Þetta er alveg frábært fyrir starfið okkar og mun nýtast fjölbreyttum hóp ungmenna. Við höfum nú þegar orðið vör við mikinn áhuga á hljóðverinu,“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður Fjörheima.

Hljóðverið mun einnig nýtast í upptökur á Fjörheimafréttum, en það eru fréttir sem 5.-10. bekkur sér um og tekur upp í hljóðveri Fjörheima. Einnig er á dagskrá að byrja með hlaðvarp sem ungmennin munu sjálf sjá um.

Fjörheimar eru eina starfandi félagsmiðstöðin í Reykjanesbæ. Félagsmiðstöðin þjónustar grunnskólanema í 5.-10. bekk, auk þess sem boðið er upp á frístund fyrir unglinga með greiningar. Hljóðverið mun einnig nýtast ungmennahúsinu 88 húsið og tilheyrir sama húsnæði, en þjónustar ungmenni 16 ára og eldri.