Fréttir

Fagna félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í Grindavík
Föstudagur 19. febrúar 2021 kl. 06:48

Fagna félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í Grindavík

og hvetja bæjaryfirvöld til að byggja samhliða yfir dagdvöl

Hugmyndir að byggingu félagsaðstöðu eldri borgara við Víðihlíð voru ræddar á síðasta fundi öldungaráðs Grindavíkur og farið yfir þau drög sem lögð voru fram á síðasta fundi ráðsins. „Í þeim drögum virtist vanta aðeins upp á framtíðarsýn og þá fjölgun eldri borgara sem vænta má á næstu tugum ára,“ segir í fundargerðinni.

Einnig komu fram ýmis sjónarmið er varðar uppbyggingu rýma innan þessarar aðstöðu og mikilvægt að hugað sé að eldhúsaðstöðu líkt og til að mynda er í félagsaðstöðu eldri borgara í Árborg. „Vert að minna á að nú er Grindavíkurbær að leigja eldhúsaðstöðu af HSS til þess að framleiða þann mat sem boðið er upp á fyrir eldri borgarana okkar í hádeginu og hefur gefið góða raun,“ segir jafnframt í fundargerðinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í ályktun sem öldungaráðs samþykkti segir:

„Öldungaráð Grindavíkur fagnar því að fyrirhugað sé að byggja félagsaðstöðu fyrir eldri borgara í Grindavík.

Ráðið telur nauðsynlegt að byggt verði um leið húsnæði fyrir dagdvöl aldraðra. Ráðið telur að byggja eigi húsið upp á tvær hæðir, þar sem dagdvöl aldraðra væri staðsett á annarri hæð hússins. Með því næðist fjárhagslegur ávinningur þar sem byggður yrði einn púði, einn húsgrunnur og eitt þak. Ef þetta yrði ekki gert þyrfti að byggja annað sjálfstætt húsnæði síðar fyrir dagdvölina með umtalsverðum kostnaðarauka og óhagræði fyrir bæði starfsmenn og vistmenn.

Með því að byggja í einu og sama húsinu fyrir félagsaðstöðuna og dagdvölina næðust samlegðaráhrif þar sem dagdvölin gæti nýtt sér félagaðstöðuna samhliða dvöl sinni hjá dagdvölinni.

Því skorar Öldungaráð Grindavíkur á bæjarstjórn Grindavíkur að horfa til framtíðar með fyrirhugaða byggingu og sjá til þess að húsið verði byggt upp á tvær hæðir og hýsi þar með bæði félagsaðstöðu aldraða og þjónustu dagdvalar í sama húsi. Og taka um leið tillit til væntanlegrar fjölgunar aldraðra á komandi árum í Grindavík.“