Eldhúsið á Nesvöllum boðið út
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti 24. október að fela bæjarstjóra að bjóða út rekstur og sölu máltíða fyrir dagdvöl aldraðra og heimsendan mat frá þjónustumiðstöðinni Nesvöllum. Á fundinum kynnti Kristinn Þór Jakobsson innkaupastjóri fjóra valkosti í kjölfar þess að Hrafnista hættir alfarið rekstri eldhúss á Nesvöllum. Ráðið valdi svokallaða leið B, sem felur í sér útboð með möguleika á stækkun starfseminnar.
Á fundi bæjarráðs 30. október var svo lagt fram minnisblað um birtingu auglýsingar vegna reksturs framleiðslueldhúss og veitingasalar á Nesvöllum, sem markar næstu skref í innkaupaferlinu.







