Bókasafnið opnar í Hljómahöll
Á morgun, fimmtudaginn 7. ágúst kl. 9:00, opnar Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Safnið hefur flutt í nýtt og betra húsnæði þar sem lögð er áhersla á að skapa notalegt og fjölbreytt rými fyrir alla aldurshópa.
Framkvæmdir og flutningar hafa gengið vel og mun bókasafnið deila rými með Rokksafninu á fyrstu hæð hússins en verður jafnframt með þrjú aðskilin rými á annarri hæð, hnokkadeild, barnadeild og ungmennadeild. Vert er að nefna að ný og uppfærð sýning Rokksafnsins verður ekki tilbúin fyrr en á nýju ári, segir í tilkynningu á vef Reykjanesbæjar.
Betri opnunartími
Bókasafnið og Rokksafnið verða opin alla virka daga frá kl. 9:00 til 18:00 og um helgar frá kl. 10:00 til 17:00. Þá er einnig gert er ráð fyrir að bæta við kvöldopnun frá og með haustinu.
„Formleg opnunarhátíð verður haldin síðar í tengslum við Ljósanótt, og verður tímasetning og dagskrá auglýst síðar og hlökkum við mikið til að fagna þessum stóra áfanga með ykkur,“ segir í tilkynningu frá safninu.