Eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni er formlega lokið
Veðurstofa Íslands hefur staðfest að gosinu sem hófst 16. júlí á Sundhnúksgígaröðinni sé nú lokið. Engin virkni er lengur í gígunum og nýtt hættumatskort endurspeglar þessa breytingu. Þrátt fyrir að gosið sé yfirstaðið eru enn lífshættulegar aðstæður á svæðinu vegna nýs og óstöðugs hrauns og mögulegrar gasmengunar.
Í gær, mánudag, féll virkni í gígnum alveg niður samhliða minnkandi gosóróa. Örlítil virkni var sjáanleg í nótt en í dag hefur engin virkni verið í gígnum og gosið talið yfirstaðið.
Landris hefur hafist á ný samkvæmt gervihnattagögnum og GNSS-mælum, um 2–3 sentimetrar. Því er ljóst að kvikustreymi undir Svartsengi er enn til staðar og ef landris heldur áfram getur það leitt til frekari kvikuhlaupa og eldgosa.
Engar stórvægilegar breytingar hafa orðið á útbreiðslu hraunbreiðunnar síðustu daga, en hún er enn óstöðug sem getur leitt til framhlaups við hraunjaðra. Þá getur yfirborð jaðarsins brostið án fyrirvara og glóandi hrauntunga runnið fram. Slík framhlaup eru lífshættuleg og mikilvægt er að halda sig fjarri jaðrinum. Þessi hætta er enn til staðar þó að eldgosinu sé lokið.
Gasmengun frá eldgosinu hefur mælst lítil á svæðinu undanfarna tvo daga og gosmóðu hefur ekki orðið vart. Þótt ekki sé lengur virkni í gígnum er áfram möguleiki á að gosmóðu geti orðið vart, jafnvel í einhverja daga eftir goslok.
Nýtt hættumatskort hefur verið gefið út og mun gilda næstu viku. Kortið endurspeglar að gosinu sé lokið, en hættur vegna nýmyndaðs hrauns og hugsanlegrar gasmengunar séu enn til staðar.