Stuðlaberg Pósthússtræti

Fréttir

Allir skipverjar á Valdimar GK frá Grindavík smitaðir
Valdimar GK við bryggju í Njarðvíkurhöfn nú síðdegis í dag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 27. september 2020 kl. 19:14

Allir skipverjar á Valdimar GK frá Grindavík smitaðir

Fjórtan skipverjar af línuskipinu Valdimar GK í eigu Þorbjarnar hf. í Grindavík greindust með kórónuveirusmit en skipið kom í land í Njarðvík í morgun eftir rúmlega sólarhrings siglingu eftir að hafa verið við veiðar skammt frá Hornafirði.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf. staðfesti þetta við Víkurfréttir og sagði að ekki væri vitað hvernig skipverjar smituðust. Smitrakning eigi eftir að skera úr um það. Skipverjarnir eru allir komnir einangrun og eru mis mikið veikir, einhverjir lítið en aðrir meira. Fyrstu skipverjarnir fóru að finna fyrir veikindum fljótlega eftir að siglt var frá Djúpavogi þar sem síðast var landað. Þar fór einn skipverji í land í skipulagt frí en hann reyndist einnig með Covid-19. Gunnar segir að það sé þakkarvert að það hafi gengið að koma skipinu í land í ljósi veikinda skipverjanna.

Skipið verður sótthreinsað og í framhaldi af því verður aflanum landað úr því. Útgerðarfélagið hefur verið í nánu sambandi við sóttvarnaryfirvöld um aðgerðir eftir að grunur lék á að um smit gæti verið að ræða. Veiðar voru nýhafnar í Meðallandsbukt þegar tekin var ákvörðun um að sigla í land.

Gunnar segir að til hafi staðið að skipið færi í slipp eftir þennan túr og það verði gert. Veikindin muni þó líklega seinka því að skipið fari aftur til veiða.

Valdimar GK við bryggju í Njarðvíkurhöfn nú síðdegis í dag.