Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason

Fréttir

Afl gossins eykst eftir því sem dagarnir líða
Nyrsti gígurinn þegar hann var virkur. VF-mynd: Jón Hilmarsson
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 24. apríl 2021 kl. 09:00

Afl gossins eykst eftir því sem dagarnir líða

Samantekt birt í Víkurfréttum 21. apríl 2021

30 dagar voru liðnir á mánudag frá því að eldgos hófst við Fagradalsfjall en eldgosið hófst að kvöldi föstudagsins 19. mars. Í samantekt frá Jarðvísindastofnun Háskólans segir að meðalhraunrennslið fyrstu 30 dagana sé 5,6 rúmmetrar á sekúndu. Í samanburði við flest önnur gos er rennslið tiltölulega stöðugt. Mælingarnar á hrauninu sýna nú að nokkur aukning hefur orðið síðustu eina til tvær vikur. Meðalrennslið fyrstu sautján dagana var 4,5 til 5 rúmmetrar á sekúndu en síðustu þrettán daga er það nálægt sjö rúmmetrar á sekúndu.

Sólning
Sólning

Samanburður við önnur gos sýnir að þrátt fyrir aukninguna er rennslið nú aðeins um helmingur þess sem kom að meðaltali upp fyrstu tíu dagana á Fimmvörðuhálsi vorið 2010, sem var þó lítið gos. Samanburður við Holuhraun sýnir að rennslið nú er 6–7% af meðalhraunrennsli þá sex mánuði sem það gos stóð. Rennslið er svipað og var lengst af í Surtsey eftir að hraungos hófst þar í apríl 1964 til gosloka í júní 1967.

Kvikan sem kemur upp í Fagradalsfjalli er basalt sem heitir ólivín-þóleiít og er að koma af satuján til tuttugu kílómetra dýpi. Jarðskorpan á Reykjanesskaga er sautján kílómetra þykk. Hraunið er að koma af meira dýpi en þau hraun sem runnið hafa á Reykjanesskaganum síðustu sjö þúsund ár. Um er að ræða frumstæða bráð sem kemur beint úr möttli jarðar. Vísindamenn sjá engin merki um að dragi úr gosinu og það það hafi einkenni dyngjugoss sem geti staðið árum og jafnvel áratugum saman.

Afl gossins hefur aukist samhliða opnun fleiri gíga

Yfirlit sem Jarðvísindastofnun Háskólans gaf út á mánudag á mælingum á hraunflæði gossins sýnir að heildarrennsli frá öllum gígum á sex daga tímabili, 12.–18. apríl, hafi að meðaltali verið tæpir átta rúmmetrar á sekúndu. Þetta er nokkur aukning frá meðalrennslinu í gosinu og staðfesting á því að samhliða opnun fleiri gíga í síðustu viku hefur afl gossins aukist nokkuð. Flatarmál hrauns er orðið 0,9 ferkílómetrar og heildarrúmmál er nú rúmlega fjórtán milljónir rúmmetrar.

Þrívíddarlíkan af gosstöðvunum

Hjá Náttúrufræðistofnun Íslands er starfrækt loftljósmyndastofa þar sem unnið er að jarðfræðikortlagningu með myndmælingatækni, þar sem teknar eru ljósmyndir úr lofti og myndirnar notaðar við gerð þrívíddarlíkana. Þessi aðferð hefur nýst vel við kortlagningu á gossvæðinu í og við Fagradalsfjall en með þrívíddarlíkönunum má áætla rúmmál og þykkt hraunsins, hraunrennsli og margt fleira.

Líkur á að þetta eldgos muni standa yfir áratugum saman

Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands birti fína samantekt yfir gosið á mánudag, þegar mánuður var liðinn frá upphafi gossins:

Gosið hófst á um 150 metra langri sprungu sem þveraði lítinn móbergshól í Geldingadölum. Fyrstu klukkustundirnar mátti sjá skvettast úr nokkrum aðskildum gosopum en opin sameinuðust hratt í þrjá aðskilda gíga. Innan nokkurra daga urðu gígarnir hinsvegar bara tveir – gjarnan kallaðir Norðri og Suðri. Sú nafnagift átti hins vegar eftir að missa marks þegar fleiri gosop opnuðust um páskana, norður af upprunalegu gosstöðvunum. Jörðin við Geldingadali hefur eftir það ítrekað rifnað upp og kvika farið að skvettast úr nýjum gosopum. Alls eru sex myndarlegir gígar þessa stundina á um 850 metra langri sprungu. Landslagið við eldgosið breytist hins vegar mjög hratt og er alls óvíst hvaða gígar munu lifa gosið af og hverjir ekki – sumir munu sennilega kaffærast í hrauni á meðan aðrir munu vaxa upp fyrir hraunbreiðurnar.

Lengi vel tóku Geldingadalir við öllu hraunrennslinu en eftir að nýjir gígar opnuðust tók hraun að leka niður í Meradali. Lengsta hrauntungan þar er komin 1200 metra frá næsta gíg þegar þetta er skrifað. Hrauntunga úr Geldingadölum stefnir einnig niður í Meradali úr suðri.

Eldgosið hefur verið einstakt sjónarspil og hefur stór hluti þjóðarinnar þegar gert sér ferð að gosstöðvunum. Hægt er að fullyrða að eldgosið sé best vaktaða og best myndaða eldgos í sögu þjóðarinnar. Sögulegt gos í alla staði.

Merkileg umbrot

Þessi fyrstu eldsumbrot á Reykjanesskaganum í 800 ár þykja einnig mjög merkileg í jarðsögulegu samhengi. Efnagreiningar Jarðvísindadeildar Háskóla Íslands hafa sýnt fram á að kvikan sem kemur upp er sú frumstæðasta sem gosið hefur frá landnámi Íslands. Ofan á þetta hafði ekki hefur gosið í grennd við Fagradalsfjall í þúsundir ára. Þó má benda á að eldgos urðu í hafi suður af Reykjanesi fyrir um 250 árum og jafnvel síðar. Efnasamsetning og stöðugt en lítið rennsli eldgossins þykja benda til þess að svokallað dyngjugos sé hafið. Sé það raunin eru líkur á að þetta eldgos muni standa yfir áratugum saman. Tíminn einn mun hins vegar leiða það í ljós hvort ný dyngja myndist á Reykjanesskaga.