Thrifty Fólksbílar

Fréttir

Aðventugarðinum verði tryggt fjármagn
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 2. apríl 2021 kl. 07:17

Aðventugarðinum verði tryggt fjármagn

„Á árinu 2020 skapaðist einstakt tækifæri til að koma á fót nýjum viðburði, Aðventugarðinum, þegar heimild fékkst til að nýta fjárheimildir sem ætlaðar voru Ljósanótt. Til áratuga höfðu viðburðir á vegum Reykjanesbæjar í aðdraganda jóla verið með svipuðum hætti þegar ljósin voru tendruð á vinabæjartrénu frá Kristiansand og því tími kominn til nýsköpunar á þessu sviði,“ segir í skýrslu um Aðventugarðinn sem tekin var fyrir í menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar.

Fjárheimildir voru nýttar til kaupa á grunnbúnaði svo sem ljósum og sölukofum. Verkefnið tókst afar vel og mikil og almenn ánægja var með það eins og könnun á vefnum Betri Reykjanesbær sýndi með glöggum hætti.

Ráðið leggur til að verkefninu Aðventugarðinum verði fram haldið og það fái fastan sess í viðburðadagskrá bæjarins. Þá skal jafnframt minnt á að hér var um frumraun að ræða á tímum þar sem ýmsar takmarkanir giltu. Því ítrekar ráðið að til þess að verkefnið megi byggjast upp og þróast áfram verði að tryggja því fjármagn á þessu ári. Meðal þess sem nauðsynlegt er að ráðast í er varanlegt aðgengi að rafmagni á Ráðhústorgi og í skrúðgarði.

Ráðið leggur auk þess til að á næsta ári verði gert ráð fyrir verkefninu í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.