Fréttir

Á fjórða hundrað nýjar íbúðir í Grindavík
Miðvikudagur 26. ágúst 2020 kl. 12:27

Á fjórða hundrað nýjar íbúðir í Grindavík

Á fjórða hundrað nýjar íbúðir verða byggðar í Grindavík á næstu árum. Hin nýja íbúðarbyggð í Grindavík verður kynnt íbúum á næstu vikum. Nýja hverfið er staðsett norðaustan við Hópsbraut og er gert ráð fyrir því að fjöldi íbúðaeininga í nýja hverfinu verði á bilinu 307 til 384. 

Megináhersla deiliskipulagsins er að afmarka lóðir og skilgreina byggingarreiti fyrir íbúðarbyggð og samfélagsþjónustu og setja skilmála fyrir uppbyggingu innan fyrirhugaðs íbúðar- og þjónustusvæðis í samræmi við lög og reglur þar að lútandi. Einnig verður lagður grunnur að vönduðum frágangi bygginga og uppbyggingar innan svæðisins. Þá er eitt markmiðið að stuðla að sjálfbæru og umhverfisvænu skipulagi með heildstæðu yfirbragði í sátt við umhverfi og samfélag. Skilgreindar verða öruggar umferðaleiðir fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mikil ásókn í lóðir

„Mikil aðsókn hefur verið í lóðir í sveitarfélaginu síðastliðin ár og hefur uppbygging gengið vel, fáar lóðir eru eftir til úthlutunar. Það var því ákveðið fyrir um ári síðan að hefja vinnu við að deiliskipuleggja nýtt hverfi norðaustan við Hópsbraut. Tillagan hefur verið samþykkt til auglýsingar í bæjarstjórn, þar gefst íbúum og öðrum hagsmunaaðilum kostur á að gera athugasemdir. Auglýsingartíminn er 6 vikur, “ segir Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Grindavíkurbæjar.

Íbúafundur vegna deiliskipulagsins fer fram 9. september næstkomanndi í Gjánni klukkan 18:00.

Hópskóli stækkaður

Einnig hefur verið unnið að hönnun á 2. áfanga við Hópskóla undanfarna mánuði og er útboð fyrir verkið í auglýsingu þessar vikurnar og er skilafrestur tilboða til 22 .september. Stækkun skólans nemur um 1.100 m2 á einni hæð auk þess sem að kjallari verður undir hluta byggingarinnar. Nýja byggingin kemur til með að hýsa fjórar heimastofur ásamt fjórum öðrum fyrir textílmennt, myndmennt, heimilisfræði og smíði.

„Grindavíkurbær er stækkandi bær og þarf því að huga að vel að þeirri þjónustu sem við þurfum að standa undir við íbúa. Undanfarinn ár hefur bæjarfélagið staðið í miklum framkvæmdum við bætta aðstöðu í íþróttamannvirkum. Nú er komið að því að huga að skólamálum og er fyrsta skrefið að auka við þau rými sem við höfum til kennslu í Grunnskóla bæjarins með því að fara í 2.áfanga á Hópskóla. Stefnt er að því að taka 2. áfanga í notkun í byrjun árs 2022,“ segir Atli.