Hs Orka starf
Hs Orka starf

Aðsent

WOW – Samgöngustofa, Stjórnvöld og Samstillt átak
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Fimmtudagur 4. apríl 2019 kl. 05:00

WOW – Samgöngustofa, Stjórnvöld og Samstillt átak

Fjármálaráðherra var spurður að því í Kastljósi, að kvöldi sama dags og flugfélagið WOW varð gjaldþrota, hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum. Hann svaraði því neitandi. Margt bendir hins vegar til þess að svar ráðherra sé ekki rétt og að Samgöngustofa hafi átt að setja flugfélaginu rekstrarlegar skorður á síðasta ári, sem hefðu getað komið því fyrir vind eða dregið úr þeirri hörðu lendingu sem nú hefur orðið.

Viðvörunarljós – sofið á verðinum
Undirritaður stóð fyrir sérstakri umræðu á Alþingi síðastliðið haust um stöðu íslensku millilandaflugfélaganna og eftirlitshlutverk Samgöngustofu. Tilefnið var sérstaklega áhyggjur af rekstri flugfélagsins WOW. Í framsöguræðu minni á Alþingi rakti ég m.a. bágborna eiginfjárstöðu WOW en í júní á síðasta ári var eiginfjárhlutfallið komið niður í 4,5% sem er mjög lágt og sýnir að félagið átti lítið eigið fé til að halda rekstrinum gangandi. Auk þess hafði félagið ekki skilað ársreikningum. Undir þessum kringumstæðum hefðu viðvörunarljós átt að kvikna hjá eftirlitsaðilanum Samgöngustofu, sem átti ekki að sitja aðgerðalaus hjá. Flugrekstur er kerfislega mikilvægur í hagkerfi okkar og því verður að fylgjast vel með starfsemi flugfélaganna rétt eins og bankanna. Í umræðunni á Alþingi spurði ég samgönguráðherra sérstaklega að því hvort að Samgöngustofa hafi gert álagsprófanir á flugfélögin. Ráðherra svaraði ekki spurningunni, sem leiðir líkum að því að það hafi ekki verið gert.

Sólning
Sólning

Skuldasöfnun við ríkissjóð látin óátalin
Málið vekur einnig sérstaka athygli fyrir það að skuldasöfnun WOW gagnvart ríkissjóði, sem eigenda Isavia, virðist hafa verið látin óátalin af fjármálaráðherra, gæslumanni ríkissjóðs. Gjaldþrota félag skuldar nú ríkissjóði um tvo milljarða króna í lendingargjöld. Það er einnig umhugsunarefni hvernig eitt félag í samkeppnisrekstri getur mánuðum saman fengið slíka fyrirgreiðslu, umfram önnur flugfélög. Það eitt og sér skekkir alla samkeppnisstöðu á Keflavíkurflugvelli og er eðlilegt að stjórnendur Isavia verði látnir svara fyrir það.

Hugurinn með þeim sem hafa misst vinnuna
Hugur minn er með þeim fjölmörgu sem hafa nú misst vinnuna, í sumum tilfellum er um hjón eða sambýlisfólk að ræða og áfallið því tvöfalt. Vonandi mildast höggið hratt sem samfélagið á Suðurnesjum hefur orðið fyrir. Öll él birtir upp um síðir. Framundan er stærsti ferðamannatíminn og góðar fréttir eru þegar farnar að berast. Icelandair mun fjölga flugvélum og vinnur nú að endurskoðun flugáætlunar sinnar. Áform eru um að auka framboðið af ferðum í sumar. Airport Associates eru þegar farnir að vinna að því að ráða góðan hluta starfsfólksins aftur. Önnur flugfélög munu síðan að einhverju marki bregðast við brotthvarfi WOW og fjölga ferðum sínum og ný bætast við eins og hollenska félagið Transavia hefur tilkynnt. Ríkisstjórnin verður síðan að styðja við bakið á sveitarfélögunum og breyta hugarfari sínu til svæðisins. Mikilvægt er að í þeirri vinnu sem framundan er verði horft til lengri tíma og þá sérstaklega næsta veturs. Ég vil þakka Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir að greina stöðuna hratt og vel og upplýsa okkur þingmenn kjördæmisins. Mikilvægi Vinnumálastofnunar og stéttarfélaganna birtist okkur í þeirra skjótu viðbrögðum. Fyrir það ber að þakka. Þá vil ég sérstaklega þakka Alþýðusambandi Íslands.                                                                                                                                                                       
Samstillt átak allra mun tryggja vonarríka framtíð.

Birgir Þórarinsson,
þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.