Aðsent

Vald í krafti auðs, eða...?
Mánudagur 31. maí 2021 kl. 09:49

Vald í krafti auðs, eða...?

Þessa vikuna hafa frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins verið áberandi í fjölmiðlum í Suðurkjördæmi. Er ég glugga í boðskap þeirra tek ég eftir að það er áberandi munur á hægri og vinstri.

Fyrir  7 vikum síðan kusu Vinstri Græn um fólk efst á lista hreyfingarinnar í Suðurkjördæmi. Þar buðu 8 manns sig fram í 5 efstu sætin. Þau kynntu sig og sína stefnu í blaðagreinum og á netinu. Þar voru engar kostaðar auglýsingar, enda ekki leyfilegt á þeim bæ. Þar skulu mannkostir ráða, ekki auðvald. Í því vali urðu þrjár konur efstar, engin þeirra þekkt fyrir völd í krafti auðs. Niðurstöður urðu þessar.  Eins og sjá má er oddvitinn úr Suðurnesjabæ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Annað virðist ráða í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þar auglýsa frambjóðendur sig grimmt, eins og sjá má hér í Víkurfréttum. Virðist lítið fé þar til sparað. 

Að auki skrifa menn pistla og fara mis rétt með mál. Sem dæmi má nefna að þeir sem tjá sig um Suðurnesjalínu 2 virðast halda að Suðurnesin séu raforkuþiggjendur. Halda greinilega að Suðurnesjalína flytji raforku til Suðurnesja og tryggi þannig raforkuöryggi. 

Hér er sannleikanum snúið á haus. Á Suðurnesjum er framleitt meiri raforka en þar er notuð - og munar þar talsverðu. Um þetta skrifaði ég vel rökstudda grein og birti hér fyrir mánuði síðan. Er frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins vinsamlega bent á að lesa hana áður en þeir halda áfram að vaða þann elg.

Annars gæti ég sagt margt gott um frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins. Ágætis fólk það ég þekki, en mér finnst málefnin frekar fátækleg og gamaldags. Gott að kjósendur geti í haust valið hvort þeir vilji næstu árin frekar hafa Alþingismenn sem sæki vald sitt í krafti auðs, eða mannlegra samskipta og trausts. 

Kjósendur geta haft nokkuð um það að segja hvort þjóðfélag okkar þróast í átt til almannavalds eða auðvalds. Hvort forystan verði meira í líkingu við það sem tíðast hefur hjá Trump eða Katrínu Jakobsdóttur.

Þjóðin fær í haust þá Alþingismenn sem hún á skilið.

Þorvaldur Örn Árnason