Aðsent

Upphaf veiða og vinnslu á loðnu í Sandgerði
Laugardagur 27. apríl 2019 kl. 05:00

Upphaf veiða og vinnslu á loðnu í Sandgerði

Hvar haldið þið að loðna hafi verið brædd í fyrsta skipti á Íslandi og hvaða bátur sá um veiðarnar? Með þessum orðum mínum sem eru hérna að ofan endaði síðasti pistill minn fyrir páskana og þar sem ekkert hefur verið að gerast í páskafrínu, nema að sjómenn og þeir sem vinna við veiðar og vinnslu sjávarafurða hafa verið að úða í sig mat og páskaeggjum, þá er rétt að svara þessari spurningu um loðnuna.

Þessi litli fiskur hefur skipt Ísland miklu máli undanfarin ár. Hann var reyndar litinn hornauga og sjómenn vildu ekki sjá þennan fisk, nema þá að línusjómenn veiddu hann og notuðu sem beitu við línuveiðar. Loðnuveiðar hófust ekki fyrr enn árið 1964 og Sandgerði á ansi stóran þátt í sögu loðnuveiða og vinnslu hérna við land sem kanski fáir taka eftir eða gera sér grein fyrir. Í Sandgerði á þessum árum gerðu bræður frá Landakoti í Sandgerði, þeir Óskar Árnason (sem síðar var lengi með rækjuverksmiðju í Sandgerði undir sama nafni), Einar Árnason og Hrólfur Gunnarsson, út bátinn Árna Magnússon GK 5. Hrólfur var skipstjóri á þessum báti.

Public deli
Public deli

Guðmundur Jónsson frá Rafnkelsstöðum í Garði rak fiskvinnslu í Sandgerði á þessum árum og líka fiskimjölsverksmiðju sem er í dag er skammt frá húsnæði Fræðasetursins í Sandgerði. Fiskimjölsverksmiðjan var mest í að bræða fiskihrat frá fiskvinnslunum í Sandgerði og Garði ásamt síld sem kom til Sandgerðis til löndunar og vinnslu þar. Á árunum fyrir 1964 stunduðu margir bátar síldveiðar um veturinn. Þegar loðnan gekk yfir síldarmiðin hættu svo til allir bátarnir veiðum, enda var þetta þannig að þegar loðnan kom í næturbátana þá fóru bátarnir í land og létu hreinsa loðnuna úr nótinni.

Hrólfur Gunnarsson, sem var eins og fram kemur að ofan skipstjóri á Árna Magnússyni GK, lét ásamt þeim bræðum Óskari og Einari útbúa nót sem var 30 faðma djúp og 130 faðma löng og með mun smærri riðla en síldarnætur voru. Þeir fóru snemma í febrúar austur undir Hornafjörð og fengu 130 tonn af loðnu í bátinn en engin fiskimjölsverksmiðja vildi taka við aflanum og endaði þessi 130 tonna loðnuafli sem beita fyrir línusjómenn um öll Suðurnes og alveg vestur á Vestfirði.

Hrólfur og áhöfnin á Árna Magnússyni GK var búin að sýna fram á að það var hægt að veiða loðnu og í róðri númer tvö fengu þeir um 140 tonn af loðnu. Engin fiskimjölsverksmiðja vildi taka við loðnunni til bræðslu. Bræðurnir Óskar og Einar í Sandgerði, sem áttu Árna Magnússon GK, fóru á fund með Guðmundi Jónssyni frá Rafnkelsstöðum í Garði og eftir gott spjall lét Guðmundur tilleiðast og ákvað að gera tilraun til að bræða loðnuna sem hann kallaði „verðlausan“ fisk. Hann ákvað að greiða helmingi minna fyrir loðnuna en greitt var þá fyrir síld. Þetta var ekki af því að hann ætlaði sér að hlunnfara útgerð bátsins, heldur að hann hafði einfaldlega enga trú á að það væri hægt að nýta loðnuna til mjölframleiðslu. Hann og fleiri urðu hinsvegar hissa þegar ljós kom að loðnumjölið var mjög gott og hið sama má segja um lýsið.

Í framhaldi af þessu fóru fleiri bátar á loðnuveiðar, en þeir voru allir mun minni enn Árni Magnússon GK. Allir bátarnir lönduðu í Sandgerði til bræðslu þar. Nefna má nokkra báta. Til dæmis landaði Tjaldur KE 87 tonnum í sex róðrum. Ver KE kom með 76 tonn í fimm róðrum. Víðir II GK, sem var í eigu Guðmundar, var með 101 tonn í einni löndun. Auðbjörg RE með 155 tonn í átta róðrum. Freyja GK með 249 tonn í tíu róðrum og Guðbjörg GK með 61 tonn í tveimur róðrum. Hafborg GK var með 35 tonn í þremur, Ingólfur KE 115 tonn í ellefu róðrum og Sigurpáll GK með 350 tonn í tveimur róðrum en Sigurpáll GK var í eigu Guðmundar eins og Víðir II GK. Árni Magnússon GK var langaflahæstur loðnubátanna með 1025 tonn í níu löndunum og var öllum aflanum landað í Sandgerði og líka úr fyrsta túrnum sem fór í beitu út um allt.

Þessi tilraun að senda bæði bátinn frá Sandgerði til loðnuveiða og líka að bræða loðnuna í Sandgerði margborgaði sig og var síðan loðnu landað í Sandgerði í yfir 40 ár eftir þetta. En í dag er því miður engri loðnu lengur landað á Suðurnesjum.