ísbúð garðarbæjar
ísbúð garðarbæjar

Aðsent

Stóra myndin
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:54

Stóra myndin

Kæru kjósendur.

Það er óhætt að segja að margt hafi breyst á liðnum árum. Efnahagshrun, heimsfaraldur og eldgos svo eitthvað sé nefnt. Margt höfum við séð og upplifað sem við áttum ekki von á. Við horfum fram á krefjandi en spennandi tíma í Vogum og á Suðurnesjum öllum. Sveitarfélagið Vogar hefur eðli málsins samkvæmt þurft að stóla á samvinnu og samstarf við nágranna sína þegar kemur að stærri verkefnum. Við höfum metnað og vilja til að bæta þjónustu við íbúa okkar en um leið þurfum við að sýna aðhald og ráðdeild. Undanfarið kjörtímabil hafa mörg stór mál rekið á fjöru okkar.

Ber þar fyrst að nefna svokallað „Línumál“. Án orðalenginga þá höfum við þurft að berjast á móti straumnum til að opna augu alþingismanna og annarra fyrir mikilvægi þess að setja Suðurnesjalínu 2 í jörðu. Það er ekki einungis gert vegna ásýndar heldur einnig vegna mikilvægi skipulags og síðast en ekki síst öryggisins vegna. Í niðurstöðuskýrslu jarðvísndarstofnunar Háskóla Íslands um náttúru- og eldgosavá í Sveitarfélaginu Vogum, kemur fram að öruggast sé að leggja línuna í jörðu norðan Reykjanesbrautar. Við munum berjast fyrir þessum hagsmunum Suðurnesjamönnum öllum til heilla og munum ekki láta hræðsluáróður beygja okkur af leið.

Við höfum einnig talað fyrir því að rannsóknir hafi sinn gang í Hvassahrauni þegar kemur að mögulegu flugvallarstæði. Einsleit atvinnupólitík má ekki verða til þess að Suðurnesjamenn kasti frá sér mögulegu tækifæri af því einu, að alllt þurfi að fara fram á Keflavíkurflugvelli. Nú kann vel að verða að þetta verði ekki fýsilegur kostur en gerum okkur ekki upp niðurstöður fyrirfram. Sláum ekki út af borðinu tækifæri sem getur gefið okkur aukinn kraft inn á svæðið. Klárum vinnuna og tökum svo ákvörðun.

Eitt af stóru málum okkar er nýtt vatnsból fyrir sveitarfélagið. Mikilvægt er að Sveitarfélagið Vogar eignist sem fyrst nýtt vatnsból sem gæti þá þjónað sem varavatnsból fyrir öll Suðurnesin enda mikilvægt að hugsa í nýrri nálgun þegar kemur að innviðum á svæðinu. Á tímum sem þessum skiptir máli að hafa fjölbreytta innviði sem geta stutt hver við aðra.

Síðast en ekki síst verður við að hafa þor og dug til að ræða kosti og galla sameiningar. Við munum halda áfram upplýstri og málefnalegri umræðu um kosti og galla sameiningar en á endanum verða það íbúarnir sem ákveða framtíðina í því.

Áfram Vogar – Áfram Suðurnes.

Birgir Örn Ólafsson,
Eva Björk Jónsdóttir,
Friðrik Valdimar Árnason,
Ingþór Guðmundsson,
Hanna Lísa Hafsteinsdóttir,
frambjóðendur í 1.–5. sæti E-listans í Sveitarfélaginu Vogum.