Aðsent

Stefna stjórnvalda ógnar ekki raforkuöryggi á Suðurnesjum
Þriðjudagur 24. maí 2022 kl. 12:57

Stefna stjórnvalda ógnar ekki raforkuöryggi á Suðurnesjum

Ógnar stefna stjórnvalda raforkuöryggi á Suðurnesjum? spyr Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri Voga í aðsendri grein í Víkurfréttum. Svarið við þessari spurningu er nei en tafir á lagningu Suðurnesjalínu 2 ógna raforkuöryggi á Suðurnesjum.

Ein mikilvægasta framkvæmdin í raforkukerfinu

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við hjá Landsneti höfum í áratugi talað fyrir mikilvægi þess að bæta afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum.  Suðurnesjalína 2 er ein mikilvægasta framkvæmdin í raforkukerfinu og á hún að tryggja raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum. Stjórnvöld hafa sett landshlutann í forgang við uppbyggingu flutningskerfisins enda öryggi raforkukerfisins á svæðinu ábótavant og mikilvægt að bæta þar úr sem fyrst.

Lína í lofti tryggir best rekstar- og öryggisþáttinn

Skýrsla Jarðvísindastofnunar, sem Ásgeir vitnar til og sveitarfélagið Vogar lét gera, staðfestir niðurstöður sömu stofnunar sem unnar voru fyrir okkur hjá Landsneti í tengslum við umhverfismat Suðurnesjalínu 2. Loftlína er lang öruggasti kosturinn með tilliti til hraunrennslis og misgengishreyfinga. Þá sýndu hitamælingar sem gerðar voru á ljósleiðara sem hraun rann yfir í nýafstöðnu eldgosi að einangrunarefni jarðstrengs eru fjarri því að þola það hitastig sem þar mældist.

Umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýndi að ekki er mikill munur á umhverfisþáttum jarðstrengs eða loftlínu. Ásgeir vitnar í álit Skipulagsstofnunar sem taldi jarðstreng ákjósanlegan en lítur fram hjá því að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði álitið gallað þar sem jarðvá jarðstrengs var einungis metin á stuttum kafla meðfram Reykjanesbraut eða á um 13 km leið af þeim rúmlega 33 km sem heildarleiðin er. Matið byggði á tæknilegum gögnum frá okkur hjá Landsneti sem voru ekki nægjanlega skýr og því ekki við Skipulagsstofnun að sakast. Til að árétta málið höfum við sent leiðréttingu til allra hlutaðeigandi en svo virðist sem efni þess vilji gleymast.

Meiri möguleiki að verja loftlínu en jarðstreng

Við hjá Landsneti höfum unnið viðbragðsáætlanir með Almannavörnum, Veðurstofunni og orkufyrirtækjum á svæðinu út frá sviðsmyndum frá Jarðvísindastofnun þar sem hraun rennur í átt að Suðurnesjalínu 1 og þar með Suðurnesjalínu 2 en ný lína verður með um þriðjungi færri möstur en sú sem fyrir er. Áætlanirnar gera ráð fyrir að ráðrúm gefist til að bregðast við áður en hraun kæmist að línunum og hefðum við tækifæri til að verja möstrin með svokölluðum leiðigörðum. Tilraunir með leiðigarða hafa sýnt að hægt er að beina hraunrennsli frá en meiri óvissa er með varnargarða þvert á hraunstefnu sem ætlað er að stöðva hraun á lengra svæði eins og þyrfti að gera til að verja jarðstreng.

Suðurnesjalína 2 í lofti er í skipulagsáætlunum Voga

Það deilir enginn lengur um mikilvægi línunnar né leiðir nema Sveitarfélagið Vogar. Öll önnur sveitarfélög á línuleiðinni, Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær hafa gefið út framkvæmdaleyfi fyrir línunni.

Vogar nýttu skipulagsvald sitt á sínum tíma og samþykktu Suðurnesjalínu 2, loftlínu, í aðalskipulagi sínu og hafa samið við okkur  um bætur vegna Suðurnesjalínu 2 þar sem hún fer yfir land í eigu sveitarfélagsins.  Biðin eftir auknu raforkuöryggi á svæðinu er orðin löng og kostnaður mikill.

Staðan í dag er þannig að hjá sveitarfélaginu hefur legið fyrir í marga mánuði umsókn um framkvæmdaleyfi sem við vonumst til að sveitarfélagið afgreiði sem fyrst.

Steinunn Þorsteinsdóttir,
upplýsingafulltrúi Landsnets