Flugger
Flugger

Aðsent

Skemmtilegasti tími ársins í Bókasafni Reykjanesbæjar
Sunnudagur 19. júní 2022 kl. 08:21

Skemmtilegasti tími ársins í Bókasafni Reykjanesbæjar

Í byrjun júní hófst sumarlestur grunnskólabarna í Bókasafni Reykjanesbæjar. Þessi tími er afskaplega skemmtilegur fyrir okkur í bókasafninu enda bíðum við full eftirvæntingar ár hvert eftir því að safnið fyllist af glöðum skólakrökkum í leit af skemmtilegum bókum og öðru efni eða viðburðum á borð við spil, óvissupakka eða daglegt föndur sem boðið upp á í allt sumar. 

Börnin okkar í Reykjanesbæ eru nefnilega alveg sérstaklega dugleg þegar kemur að því að taka þátt í sumarlestri og bera höfuð og herðar yfir þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við. Bókasafnið hefur tekið þessum mikla áhuga grunnskólabarna bæjarins sem áskorun og leggur sig fram við að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega lestrarleiki fyrir alla fjölskylduna. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú þegar hafa allir nemendur í fyrsta til fjórða bekk grunnskóla Reykjanesbæjar fengið kynningu á sumarlestri í sínum grunnskóla auk bókaskrár og lestrarleikja með sér heim úr skólanum. Sumarlestur er fyrir alla krakka grunnskóla fyrsta til tíunda bekk og einnig þá sem eru að hefja sína skólagöngu í haust. Það að viðhalda lestarfærni yfir sumarmánuðina er mjög mikilvægt fyrir námsfólk á öllum aldri og viljum við hvetja alla íbúa; mömmur, pabba, ömmur, afa, systkini, frænkur og frænda, til að lesa með þessum duglegu krökkum í sumar. Í hverri viku verður dreginn út vinningslestrarhestur og verðlaunin í ár eru bíóferð fyrir tvo. 

Auk þess efnis sem hannað hefur verið fyrir grunnskólanemendur er boðið upp á lestrarbingó fyrir fullorðna og lestrarspilið Lestrarævintýri á Reykjanesi sem öll fjölskyldan getur spilað saman að kostnaðalausu. Allt sumarlestrarefnið er aðgengilegt á heimasíðu bókasafnsins til útprentunar og í safninu sjálfu. Að lokum viljum við benda á að hægt er að skila inn þátttökumiðum rafrænt á netinu, í safnið til okkar og í skólabókasöfn grunnskóla Reykjanesbæjar í haust. Þá kemur jafnframt í ljós hvaða grunnskóli vinnur skólakeppni sumarlesturs. Grunnskólinn með flesta þátttökuseðla nemenda sinna hreppir bókagjöf í skólabóksafnið sitt í verðlaun, í fyrra vann Háaleitiskóli – hvaða skóli verður það í ár?

Kæru íbúar, í sameiningu getum við gert þetta að besta lestrarsumrinu.

Sólskinskveðjur, starfsfólk
Bókasafns Reykjanesbæjar.