Aðsent

Settu þína heilsu í forgang
Fimmtudagur 13. október 2022 kl. 11:37

Settu þína heilsu í forgang

Núna þegar kórónaveirufaraldurinn er nánast að baki hefur komið í ljós að hann er ein mesta lýðheilsufræðilega áskorun samtímans. Faraldurinn hefur einnig sýnt okkur hversu mikilvæg hreyfing er fyrir bæði líkama og sál en margir hafa átt erfitt með að koma sér í gang eftir faraldur. Ekki má heldur gera lítið úr þeirri vanlíðan sem Covid getur valdið og margir hafa verið lengi að jafna sig bæði líkamlega og ekki síst andlega. Það hefur verið afar fróðlegt að þjálfa fólk sem þjáist að eftirköstum Covid og það er mjög persónubundið hvar fólk er statt í ferlinu þegar það byrjar aftur að hreyfa sig. Hafa sumir þurft að bíða ansi lengi eftir því að geta byrjað þótt hugurinn segði jafnvel annað. Einkennandi hjá mjög mörgum voru mæðin og þreytan. Hugurinn vildi fara á fulla ferð en skrokkurinn var bara alls ekki á sama máli. Mikilvægt er að hlusta vel á líkamann og vinna út frá honum. Alls ekki reyna að fara þetta bara á hörkunni og ætlast til þess að líkaminn sé fljótur að jafna sig og gamla úthaldið sé ennþá til staðar. Margir hafa upplifað þetta og hreinlega bara gefist upp. Það besta í þessari stöðu er að gefa sér góðan tíma í bataferlið og taka einn dag í einu því dagarnir geta verið misjafnir, góður í gær en slæmur í dag. Við verðum að hlusta á eigin líkama því enginn nema þú sjálf(ur) getur fundið hvernig þér líður. Það eru ýmsar leiðir í boði fyrir fólk og ekki bara þá sem hafa fengið Covid og eftirköstin heldur bara alla þá sem þurfa einhverra hluta vegna að ná sér aftur á strik eftir ýmiss konar veikindi. Mikilvægt er að þiggja leiðsögn fagaðila eins og t.d. þjálfara, sálfræðinga og gefa sér þann tíma sem þarf til þess að koma heilsunni í sama farveg og hún var fyrir veikindi. Góðir hlutir gerast hægt og við fáum bara einn líkama á þessari lífsleið og því mikilvægt að hlúa vel að honum. Sjálf hef ég pælt gríðarlega í þessum hlutum og var með heilsuferð á Tenerife núna fyrr í haust þar sem farið var vel í þessar umræður og t.d. um kulnun, skjaldkirtilsvandamál og fjölbreyttar leiðir að bættri heilsu. Einblínt á markvissan hátt að hlúa vel af þeim þeim þáttum sem við höfum stjórn á eins og hreyfingu, mataræði og jákvætt hugarfar. Einnig var boðið upp á fjölbreytta einkaþjálfun, Yoga, styrktaræfingar, verkefni sem tengdust sjálfskoðun og heilsu uppbyggingu hvers og eins. Verð með aðra svona heilsuferð í byrjun næsta árs og áhugasamir geta aflað sér nánari upplýsinga á www.siggakr.is. Fólk á svo ekki að hika við að leita til stéttarfélaga sinna sem styrkja flest við allt það sem tengist bættri heilsu. Það er nefnilega aldrei of seint að taka fyrsta skrefið.

Sigríður Rósa Kristjánsdóttir.
Höfundur er einkaþjálfari.

Public deli
Public deli