Má búast við breytingu á vistunartíma og gjaldskrá í leikskólum Reykjanesbæjar í haust?
Má búast við breytingu á vistunartíma og gjaldskrá í leikskólum Reykjanesbæjar í haust?
Nú liggja fyrir þrjár tillögur hjá menntaráði Reykjanesbæjar er lúta að breytingum á vistunartíma og gjaldskrá í leikskólum Reykjanesbæjar sem fela eftirfarandi í sér:
- Samræming skólaleyfa leik- og grunnskóla. Útfærslan í leikskólum á þann hátt að lokað verður í dymbilviku. Lokun í vetrarfríum (október og febrúar). Þó með þeim hætti að hafa opið í 1-2 leikskólum eftir þörfum þar sem kennarar fylgja börnum úr sínum leikskóla í þann sem opinn verður og að skráning fari fram með tveggja mánaða fyrirvara. Áfram lokað á milli jóla og nýárs eins og verið hefur s.l. ár.
- Gjaldfrjáls leikskóli. Bjóða upp á 6 klst. gjaldfrjálsan leikskóla á bilinu kl. 8-15. Einungis er greitt fæðisgjald. Umfram 6 klst. er greitt fullt gjald án afsláttar utan systkinaafsláttar. Ekki verður gerð breyting á afslætti fyrir einstæða foreldra og foreldra í námi. Eins er lagt til að bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika sem felur í sér að kaupa til dæmis vistun fyrir barn í 4 daga í 8 tíma og 1 dag í 4 tíma, samtals 36 tíma á viku og taka leikskólagjöld mið af því. Með þessum breytingum tekur einnig gildi sú regla að foreldrar og forráðamenn geta aðeins breytt um vistunartíma tvisvar á ári, annars vegar fyrir 15. ágúst fyrir haustönn og hins vegar fyrir 15. desember fyrir vorönn.
- Afsláttur af leikskólagjöldum til starfsfólks leikskóla. Um ræðir 40% afslátt af leikskólagjöldum fyrir starfsmann í 80% starfi hið minnsta með sama lögheimili og barnið í Reykjanesbæ.
Tillögurnar koma frá samráðshópi um bættar starfsaðstæður í leikskólum. Hópurinn hóf störf eftir 8. mars s.l. en stjórnendur í leikskólum Reykjanesbæjar kölluðu eftir myndun slíks hóps til þess að skoða starfsaðstæður barna og starfsfólks í leikskólum sveitarfélagsins á 372. fundi menntaráðs þann 8. mars s.l. Tillögurnar voru síðan lagðar fram til umræðu á síðasta fundi menntaráðs nr. 374 sem haldinn var 24. maí s.l. og til stóð að kjörnir fulltrúar myndu kjósa um þær. Undirrituð lagði fram bókun á fundinum og gerði athugasemd við hvernig staðið var að vali í samráðshópinn og á þeim forsendum óskaði eftir að víðtækara samráð yrði haft við bæði leikskólastéttina og foreldra og forráðamenn leikskólabarna áður en kosið yrði um tillögurnar (bókunin og svar við henni sjá má í fundargerð menntaráðs á vef Reykjanesbæjar). Niðurstaðan varð sú að afgreiðslu málsins verður frestað fram á næsta menntaráðsfund í júní.
Um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar
Í skýrslu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út í maí árið 2021 og ber heitið Styrking leikskólastigsins eru taldar upp 6 tillögur í jafnmörgum flokkum og undir hverri tillögu eru lagðar fram aðgerðir sem ætlað er að stuðla að bættum starfsaðstæðum í leikskólum landsins. Nú þegar er búið að ráðast í það að koma einhverjum af þessum aðgerðum í framkvæmd hjá viðeigandi aðilum og sveitarfélögum. Eins og nafn skýrslunnar gefur til kynna er ætlunin með þessum tillögum að styrkja leikskólastigið og gera leikskóla aftur að eftirsóknarverðum vinnustað.
Í tillögum samráðshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar kemur fram að á haustmánuðum muni vanta í kringum 60 starfsmenn í leikskóla Reykjanesbæjar. Nú þegar finnum við fyrir þessu sem störfum í leikskólunum. Okkur vantar fleira starfsfólk. Auðvitað er það misjafnt eftir leikskólum hversu mikið foreldrar og forráðamenn hafa fundið fyrir þessari vöntun á starfsfólki. Ég hef því miður ekki tölur yfir lokanir á deildum í vetur, en eitthvað hefur borið á óánægju foreldra og forráðamanna vegna fyrirvaralausra lokana þar sem foreldrar þurfa að snúa aftur í leikskólann og sækja barnið sitt sökum manneklu. Eins hefur verið eitthvað um skipulagðar lokanir á deildum. Reynt er eftir fremsta megni að halda deildum opnum og viðkvæðið í leikskólum víðvegsvegar á þann veg: „Okkur er sagt að við verðum að láta þetta ganga. Það megi alls ekki senda börn heim“.
Þegar kemur að mönnun á deildir í leikskóla fara mörg sveitarfélög eftir reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 2251 frá árinu 1995 sem segir til um ákveðinn fjölda barna pr. starfsmann og kallast það barngildi. Umrædd reglugerð er brottfallin og tók ný reglugerð um starfsumhverfi leikskóla nr. 655 gildi árið 2009. Í þeirri reglugerð hefur kafli um barngildi verið fjarlægður og skal fylgja eftirfarandi við röðun starfsfólks á deildir í leikskólum:
Leikskólastjóri, að höfðu samráði við sveitarstjórn eða nefnd sveitarfélags sem fer með málefni leikskóla í sveitarfélaginu, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2008 um leikskóla og starfsfólk leikskóla, tekur ákvörðun um fjölda barna í leikskóla hverju sinni. Ákvörðun um fjölda barna og skipulag skólastarfs skal taka mið af samsetningu barnahópsins, dvalartíma barna dag hvern, aldri þeirra og þörfum, samsetningu starfsmannahóps og umfangi sérfræðiþjónustu (Reglugerð um starfsumhverfi leikskóla, https://island.is/reglugerdir/nr/0655-2009).
Það gefur auga leið að samsetning starfsmannahópsins skiptir verulegu máli þegar kemur að því að veita börnum þjónustu eftir þörfum og halda uppi gæðum og fagmennsku í leikskólastarfi. Erfitt reynist að ráða hæft fólk til starfa í leikskóla og sú staða, því miður, komin upp að ekki er alltaf hægt að tryggja nægilegan fjölda starfsmanna inn á deildum út frá barngildi. Þess þá heldur út frá nýju reglugerðinni sem felur í sér að skoða fleiri þætti við niðurröðun starfsfólk á deildir heldur en aðeins fjölda barna.
Í niðurstöðu könnunar sem Kennarasamband Íslands (KÍ) lagði nýverið fyrir félagsmenn sína kemur fram að „því eldri sem svarendur eru því líklegri eru þeir til að ráða mjög eða frekar vel við álag í starfi, það á bæði við starfsaldur og lífaldur“. Ef ekki er hugað vel að samsetningu starfsmannahóps á deildum má búast við ójafnvægi í því að starfsfólk ráði vel við starfið. Við slíkar aðstæður er starfsfólk líklegra til þess að gefast upp og leitað annað ef það ræður illa við starfið og finnur ekki fyrir stuðningi til þess að takast á við það sem veldur því álagi og streitu.
Gríðarleg aukning er á því að börn þurfi stuðning. Í upplýsingum frá KÍ kemur fram að frá árinu 1998 til ársins 2022 hefur orðið 316% aukning í þörf á stuðningi fyrir börn. Eins hafa fleiri börn annað móðurmál en íslensku, eða 480% aukning frá 1998 til 2022. Fjölbreytni í barnahópum og ólíkar þarfir barna kalla líka á fjölbreyttan starfshóp með ólíka menntun, hæfni og getu í að takast á við krefjandi verkefni og aðstæður í leikskólastarfi. Allt sem við erum að sjá gerast núna hvað varðar mönnunarvanda í leikskólum segir okkur að eitthvað stórkostlega mikið er að. Við þessu þarf að bregðast!
Vinnustytting, aukin undirbúningstími faglærðra, námssamningar, veikindi og aukin starfsmannavelta veldur fjarveru starfsmanna af deildum og eykur þar með álag á hina sem eftir eru. Sérstaklega í ljósi þess að þegar um vinnustyttingu er að ræða kemur enginn í manns stað. „Okkur er sagt að vinnustytting megi ekki kosta neitt eða skerða þjónustu“. Tillögurnar sem hér um ræðir fela í sér bæði kostnað fyrir sveitarfélagið og skerta þjónustu með fleiri frídögum fyrir foreldra og forráðamenn. Því spyrja leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla sig: „Má sem sagt vinnustytting kosta og má skerða þjónustu?“
Munu tillögurnar að ofan um breytingu á vistunartíma og gjaldskrá í leikskólum Reykjanesbæjar leiða til bættra starfsaðstæðna leikskólakennara og starfsfólks í leikskólum?
Á ráðstefnu KÍ Skóli nútíðar – vegvísir til framtíðar voru dregin upp þau atriði sem valda leikskólastarfinu hvað mestu álagi.
Vanfjármagnað kerfi: Ráða sveitarfélögin einfaldlega við rekstur leikskóla þegar hlutur foreldra og forráðamanna hefur lækkað mikið síðustu ár og áratugi? Ég velti þeirri spurningu fram um 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla. Getur það borgað sig fyrir sveitarfélögin að bjóða upp á það? Já, vegna þess að greiðsluhlutur foreldra/forráðamanna er í raun og veru aðeins umfram 6 tímana. Eftir að hafa séð kostnaðargreiningu á 6 tíma gjaldfrjálsum leikskóla kom mér mest á óvart hversu lítið þetta mun kosta sveitarfélögin. Greiðsluþátttaka þeirra með hverju barni er þegar mikil. Gjaldfrjáls leikskóli er því búbót fyrir foreldra og forráðamenn leikskólabarna sem geta nýtt sér 6 tímana gjaldfrjálst! Þá má spyrja sig, þar sem hlutur foreldra og forráðamanna lækkar enn frekar má þá búast við enn frekari erfiðleikum í rekstri leikskóla?
Það vantar starfsfólk: Bæði faglærða og ófaglærða. Staðreyndin er sú að fólk er ekki að sækjast í þetta starf. Starfið er krefjandi og margar áskoranir liggja í leikskólakerfinu, ákveðinn vítahringur hefur myndast í mönnunarvanda sem hefur áhrif á starfsfólkið sem eftir er á gólfinu. Með fjarveru fólks eykst álagið á hina. Með því að loka deildum þá tryggir leikskólastjóri að fjöldi starfsmanna pr. barn er virtur og þannig dregur hann úr álagi og streitu á bæði starfsfólkið og barnahópinn. Ásamt því að tryggja faglegt starf. Með aukinni kröfu um að halda deildum opnum til þess að tryggja þjónustu þá kemur sú staða upp að deildir eru undirmannaðar. Það segir sig sjálft, það dregur úr gæðum á þjónustu, dregur úr faglegu starfi og það veldur auknu álagi og streitu. Það eykur starfsmannaveltu, og bæði skammtíma- og langtímaveikindi starfsfólks. Árið 2022 fóru 100 starfsmenn leikskóla Reykjavíkur í félagi leikskólakennara (FL) og í félagi stjórnenda leikskólakennara (FSL) í langtímaveikinda af 771 sem eru 13% starfsmanna. Sama ár voru skammtímaveikindi í leikskólum í Kópavogi tæplega 40 dagar á hvern starfsmann miðað við ca. 25 árið 2018.
Í þessu samhengi langar mig líka að benda á launamun hjá ófaglærðum starfsmanni í leikskóla og stuðningsfulltrúa í grunnskóla. Laun hins síðarnefnda eru hærri en hins fyrrnefnda. Það er eitthvað sem þarf að breyta! Þess má geta að í ársbyrjun 2020 tóku ný lög gildi um eitt leyfisbréf kennara þvert á skólastigin þrjú; leik-, grunn- og framhaldsskóla. Laun leik- og grunnskólakennara eru hin sömu nú óháð því hvort þeir starfa í leik- eða grunnskóla. Gleðifregnir eru þær að í kjarasamningi FL fyrir ári síðan urðu laun deildarstjóra í leik- og grunnskóla hin sömu. Það gefur grunnskólakennurum sem hafa áhuga á því að starfa við stjórnun möguleikann á því að starfa sem deildarstjórar í leikskóla með sömu laun og deildarstjórar í grunnskóla.
Með tillögu nr. 1 Samræming skólaleyfa leik- og grunnskóla er lagt til að vinnustytting starfsfólks í leikskóla og leikskólakennara gengur upp í alla frídagana. Vetrarfrí í október eru samræmd á milli allra grunnskóla og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Aftur á móti eru vetrarfrí í febrúar ekki með sama hætti. Af 7 grunnskólum Reykjanesbæjar þá eru 5 grunnskólar með vetrarfrí á vorönn. Ekkert samræmi er í dagsetningum og 1 af þessum 5 grunnskólum er með vetrarfrí í mars. Eins er ekki samræmi í fjölda daga vetrarfrís eftir skólum. Af þeim 5 grunnskólum sem eru með vetrarfrí á vorönn þá eru 4 með einn dag og sá fimmti er með 2 daga. Um ræðir aukningu upp á 7 lokunardaga á ári fyrir foreldra og forráðamenn leikskólabarna. Ávinningur af tillögu 1 er eftirfarandi skv. samráðshópnum:
- Draga úr lokunum deilda með því að nýta frídagana í vinnustyttingu.
- Bjóða upp á fjölbreyttari leiðir í vinnustyttingu.
- Samræma starfs- og vinnutíma skólastiganna og auka þannig aftur flæði kennara á leikskólastigið í störf.
- Draga úr fjarveru vegna veikinda.
Með tillögu nr. 2 Gjaldfrjáls leikskóli er verið að horfa til þess að stytta dvöl barna í leikskóla. Dvalartími barna á leikskóla á Íslandi er með því lengsta sem þekkist í heiminum. Með styttri dvalartíma barna ætti að skapast svigrúm til þess að gera kennurum og starfsfólki kleift að fara í kjarasamningsbundna undirbúningstíma og taka út vinnustyttingu á þeim tímum dagsins sem fæst börn eru í skólanum. Ég velti því fyrir mér hvort það sé raunhæft að hugsa sem svo. Í kostnaðargreiningu Reykjanesbæjar er lagt upp með ákveðnum fjölda sem myndi nýta sér 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla. Út frá þeim fjölda sem þeir gefa sér að myndi nýta sér gjaldfrjálsan leikskóla sé ég ekki að það skapist svigrúm til þess að senda starfsmann af deild. Auðvitað eru aðstæður mismunandi á milli leikskóla.
Hér má sjá töflu sem sýnir barngildi sem Reykjanesbær samþykkti árið 2019. Þá var barngildið 0,8 tekið út.
Hér má sjá töflu sem sýnir útreikning á því hversu margir þurfi að nýta sér gjaldfrjálsan leikskóla svo hægt sé að senda 1 starfsmann af deild. Fjöldi barna er áætlað meðaltal eftir aldri og starfsmannafjöldi út frá barngildi.
Ég hef ekki upplýsingar um það hversu mörg börn þurfa að fara umfram barnfjölda á starfsmann til þess að næsti starfsmaður bætist við. Það má alveg búast við því að það sé misjafnt eftir leikskólum. Ég hef alltaf staðið í þeirri trú að ef foreldrar og forráðamenn gætu þá myndu þeir stytta dvalartíma barna sinna og sækja þau fyrr. Nú þegar er lítill hópur foreldra sem sækir börnin sín fyrr og kemur með þau seinna á morgnana. Ef tillaga 2 verður samþykkt þá verður forvitnilegt að sjá hversu margir muni nýta sér 6 tíma gjaldfrjálsan leikskóla og þá hvort það skili sér í bættum starfsaðstæðum leikskólakennara og starfsfólks leikskóla með þeim hætti að hægt verði að senda þá í undirbúningstíma og vinnustyttingu að morgni eða í lok dags. Það má þó alls ekki vera á kostnað þess að hafa undirmannað á deildum í lok dags eða sameina barnahópa í rými með færra starfsfólk en getið er um út frá barngildi.
Tillaga nr. 3 Afsláttur af leikskólagjöldum til starfsfólks leikskóla er ætlað að vera hvati fyrir ákveðinn hóp að sækja sér starf í leikskóla.
Að lokum
Í því samhengi að bæta starfsaðstæður okkar í leikskólastarfi þá hafði ég mestar áhyggjur af því að gjaldfrjáls leikskóli myndi leiða til þess að draga úr faglegu leikskólastarfi, sérstaklega í lok dags. En ég fæ ekki séð að nein breyting verði þar á. Vissulega felur tillaga 1 í sér möguleikann á lægri leikskólagjöldum fyrir þá foreldra og forráðamenn sem geta nýtt sér það. Hvað varðar samræmingu á fríum í leik- og grunnskóla þá leysir það hluta af vanda við að manna deildir vegna vinnustyttingar, sérstaklega hjá þeim leikskólum sem eru í fullri vinnustyttingu. Það verða foreldrar og forráðamenn sem munu finna mest fyrir því með fleiri lokunardögum yfir leikskólaárið. Á móti má vænta þess að það dragi úr ófyrirsjáanlegum lokunum svo framarlega sem náist að ráða nægilegan fjölda starfsfólks í leikskóla Reykjanesbæjar í haust.
Jóhanna Helgadóttir.
Höfundur er fulltrúi leikskólakennara í menntaráði