Nýsprautun flutt
Nýsprautun flutt

Aðsent

Jónatan Jóhann Stefánsson – minning
Föstudagur 2. desember 2022 kl. 10:30

Jónatan Jóhann Stefánsson – minning

Jónatan Jóhann Stefánsson var fæddur 15. febrúar 1943. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlíð í Grindavík 29. október sl. Útförin fór fram í Fossvogskirkju 21. nóvember sl.

Ég sat við eldhúsborðið og fékk mér morgunkaffi. Skyndilega heyrist bílflaut fyrir utan, þrjú flaut í röð. Ég gekk að glugganum. Á miðju hlaðinu stóð bifreið með bílnúmerinu H. Betty. Bílrúðan var skrúfuð niður og það var kallað; „Er þingmaðurinn ekki vaknaður, þetta er nú meiri lúxusinn hjá þessum þingmönnum“. Út úr bílnum steig Tani vinur minn, kominn í kaffi. Jæja, nú er ég með fréttir sagði hann. Svo hófst ræðan. Mér fannst ég vera komin á pólitískan framboðsfund. Ræðan bar þess vel merki að sá sem hana flutti hafði pólitískt nef, eins og sagt er. Pólitíska hjartað sló hjá Vinstri grænum, enda maðurinn einn stofnenda flokksins, númer sjö. Tani var nátengdur stjórnmálamönnum úr flest öllum flokkum. Sjómaður, vélstjóri og leigubifreiðastjóri. Hafði brennandi áhuga á stjórnmálum og var í beinu sambandi við forsætisráðherra, forseta Alþingis og þingmenn. „Sestu, þrjár mínútur í viðbót svo er ég farinn“ og ræðan hélt áfram. Rúmum klukkutíma síðar kvaddi hann. Síðdegis hringdi hann svo og þá tók við önnur pólitískt ræða; „Jæja nú er ég með fréttir úr pólitíkinni, ég hitti mann“.                                                                                 

Við Tani áttum dagleg símtöl um árabil og enduðu þau öll á sama veg. Hann lagði símtólið á án þess að kveðja. Allra síðustu ár sagði hann þó einstöku sinnum, „ég þakka fyrir“ og lagði svo á. Það var af sjálfsögðu ég sem átti að þakka fyrir þessar sögustundir, sem voru í raun list. Tilsvörin gátu verið eftirminnileg. Eins og túrinn með Garðari frá Patró sem stóð í rúmar þrjár vikur. Þegar í land var komið bauð skipstjórinn Tana að fara í bað heima hjá sér enda þrjár vikur langur tími baðleysis. Tani afþakkaði kurteisilega og sagði; „Það tekur því nú ekki það eru bara tvær vikur eftir af túrnum“.

Leiðir okkar Tana lágu fyrst saman þegar ég var unglingur. Kynnin voru eftirminnileg, ég sá þennan fyrirferðamikla og hrausta mann í fyrsta sinn á hlýrabol með axlabönd að gera að stórum steinbít á miðju eldhúsborðinu. Ég og faðir minn voru komnir í matarboð. Honum lá hátt rómur og sagði; „Borðaðu meira maður, þú ert að vaxa.“ Ég þorði ekki að leifa soðnum steinbít og afþakkaði ábótina. Tani hafði dálæti á hefðbundnum íslenskum mat. Eitt sinn hringdi ég í hann og bauð honum í gúllas. Hann vildi þá fá að vita hvers konar gúllas það væri, ég lýsti þá matargerðinni fyrir honum í stuttu máli. Þegar því var lokið lagði hann símtólið á. Hann lét síðan ekki sjá sig í gúllasið, enda rétturinn með austurlensku ívafi.                                                                      

Ókvæntur og barnlaus með stórt hjarta. Æskuástin H. Betty. Hann þekkti marga, greindur, minnugur, sagði margar sögur og eldaði sér kjötsúpu á jólum. Horfði á Alþingisrásina og fékk jólakort frá Bessastöðum á hverju ári í 20 ár.

Eitt sinn ók Tani  á leigubílnum niður Laugarveginn, sá þá Ólaf Ragnar og frú á gangi. Sveigði bílnum að gagnstéttinni, í áttina að þeim hjónum, skrúfaði niður bílrúðuna og kallaði; „Ólafur, nú ferð þú í forsetann“. Nei, Tani minn sagði frúin, það verður aldrei, hann er svo óvinsæll. Tani hafði hins vegar á réttu að standa eins og svo oft áður í pólitíkinni. Ólafur varð forseti og Tani fékk jólakortin góðu.

Að endingu sat ég við rúmstokkinn hjá þessum góða og trygga vini.  Það var komið að leiðarlokum. Handarbandið sem eitt sinn var þétt og ákveðið var orðið veikt. Ég  bað fyrir Guðs blessun. Hann lagði aftur augun í hinsta sinn. Sáttur og hvíldinni feginn. Þögnin var djúp og friðurinn sæll.

Hafðu þökk fyrir allt og allt kæri vinur, ég mun sakna þín.                                                                                         

Guð blessi minningu Tana.

Birgir Þórarinsson