Hvað verður gert í Reykjanesbæ árið 2023?
Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2023 til og með ársins 2026 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 6. desember síðastliðinn og því ljóst hvaða verkefni við sem íbúar munum sjá raungerast á næsta ári og hvaða verkefni fara í undirbúning á næstu árum.
Við fögnum því að áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu á A hluta að fjárhæð 233 m.kr. og jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 925 m.kr. í samstæðu A og B hluta á árinu 2023. Það er mjög mikilvægt í okkar huga að tryggja ábyrgan rekstur og ber þessi fjárhagsáætlun þess merki.
Það er mat okkar að gott samstarf sé á milli bæjarstjórnarinnar í heild sinni og er það mikill kostur þegar um stór verkefni í fjórða stærsta sveitarfélagi landsins er að ræða. Þegar verkefni næstu ára eru skipulögð liggur málefnasamningur meirihluta til grundvallar og teljum við að okkur miði vel áfram í því að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram. Helstu áherslur og verkefni á árinu 2023 eru:
Hvatagreiðslur vegna íþrótta og tómstunda fyrir 4–5 ára börn verða innleidd í fyrsta sinn.
Nýr leikskóli verður byggður í Dalshverfi III og áætlað að taka á móti 50–60 börnum haustið 2023 og fleiri börnum á árinu 2024, en í heildina getur leikskólinn tekið á móti 120 börnum þegar hann verður fullbyggður.
Framkvæmdir við sex deilda 120 barna leikskóla í Hlíðarhverfi hefjast af hálfu verktaka sem mun skila byggingunni til Reykjanesbæjar en áætlað er að leikskólinn opni árið 2024.
Bygging íþróttamiðstöðvar við Stapaskóla verður kláruð með viðurkenndum keppnisvelli fyrir íþróttir innanhúss ásamt sundlaug.
Vinna heldur áfram við að koma Myllubakkaskóla í starfhæft ástand sem mun taka nokkur ár auk viðgerða á öðru skólahúsnæði, t.a.m. vegna rakaskemmda.
Nýr vaktturn verður byggður í Sundmiðstöðinni til að auka öryggi sundlaugagesta.
Unnið verður að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í samvinnu við ríkið.
Unnið verður að innleiðingu stafrænna lausna í gegnum samstarfsvettvang sveitarfélaganna, sem mun einfalda þjónustu við íbúa.
Vinna við byggingu nýs 80 rýma hjúkrunarheimilis í samvinnu við ríkið heldur áfram.
Lokið verður við mótun markaðsstefnu Reykjanesbæjar.
Áframhaldandi innleiðing á umhverfis- og loftlagsstefnu Reykjanesbæjar.
Áframhaldandi fræðsla og innleiðing á barnvænu sveitarfélagi í samstarfi við UNICEF.
Heilsustígagerð heldur áfram og stígar kláraðir á Ásbrú.
Fjármunir settir í endurbætur skólalóða.
Lyfta sett í 88 húsið til að bæta aðgengi að húsinu.
Aukinn kraftur í gróðursetningu trjáa og skógrækt sem liður í kolefnisjöfnun.
Haldið verður áfram með uppbyggingu rafhleðslustöðva fyrir almenning til að styðja við orkuskipti í samgöngum.
Samstarfssamningur verður gerður við Samtökin ‘78 um hinsegin fræðslu í skólum, íþróttafélögum og fleiri stofnunum bæjarins.
Unnið verður að úrbótum í íþrótta- og tómstundastarfi í samræmi við niðurstöður starfshópa sem skilað verður á vormánuðum.
Þetta er ekki tæmandi listi og við hlökkum til að fylgja þessum verkefnum úr hlaði og fara strax að undirbúa jarðveginn fyrir þau sem á eftir koma.
Við óskum ykkur farsældar á komandi ári og þökkum fyrir samstarfið og öll uppbyggilegu samtölin sem við höfum átt við íbúa, starfsfólk Reykjanesbæjar og alla bæjarfulltrúa á vettvangi bæjarstjórnar á árinu sem er að líða.
Fyrir hönd meirihlutans,
Friðjón Einarsson,
formaður bæjarráðs,
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir,
forseti bæjarstjórnar,
Valgerður Björk Pálsdóttir,
bæjarfulltrúi.