Aðsent

Geta drengir lesið?
Föstudagur 17. september 2021 kl. 10:24

Geta drengir lesið?

Já! og það ætti enginn að efast um það eitt augnablik. Drengir geta lesið og vilja sérstaklega lesa um það sem tengist áhugasviði þeirra. Áhugasviðið er fjölbreytt og það er okkar hlutverk sem foreldra og kennara, ömmu og afa, frænku og frænda að taka samtal við drengina okkar og hlusta á væntingar þeirra og vilja til lesturs. Hlutverk okkar er einnig að spyrja þá um þær leiðir sem henta þeim best við lestur og hvers konar lestrarefni þeir geti hugsað sér, því þeir vilja flestir sjá tilgang með því sem þeir eru að lesa.

Sýnileiki lesturs skiptir máli og þá er gott að ígrunda hvernig þessu er háttað heima og spyrja hvort drengirnir okkar sjái lestrarfyrirmyndir þar. Er pabbi að lesa? Er afi að lesa, frændi, vinur eða einhver annar tengdur heimilinu? Sama má spyrja um mæður, ömmur, systur, frænkur og vinkonur. Að lokum þá skiptir miklu máli varðandi lestur drengja og möguleika þeirra til að ná góðum árangri er viðhorf okkar til lesturs og lestrarþjálfunar. Jákvæð viðhorf til þessara þátta skiptir miklu máli þegar verið er að byggja upp góða lestrarfærni og ná tökum á henni. Að byggja upp góða lestrarfærni er langhlaup sem krefst tíma og æfingar. Við þurfum að hjálpa drengjum að sjá ákveðinn tilgang og ávinning af lestri, veita þeim aðgang að lestrarefni tengdu áhugasviði og finna með þeim leiðir sem henta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

SKÓLASLIT hefst núna 1. október og er spennandi lestrarupplifun fyrir nemendur með sérstaka áherslu á drengi þó að allir muni njóta. Eitt markmiðið er að hlusta á drengi og læra af þeim. Við undirbúning voru tekin rýnisamtöl við drengi á miðstigi í grunnskólum hér á svæðinu. Samtölin voru meðal annars könnun á áhugasviði drengja og þeir spurðir að því hvað gæti aukið áhuga þeirra á lestri, hvaða lestrarform hentaði þeim best og hvernig þeir myndu vilja æfa sig í lestri. Afar áhugaverðar upplýsingar fengust og gáfu þeir okkur innsýn í vilja og væntingar er snúa að lestri og lestrarþjálfun. Samtal við drengi um lestur gefur okkur tækifæri þess að læra af þeim og hvernig þeir sjá hlutina fyrir sér. Við hvetjum ykkur til þess að taka samtal við drengina okkar og höfum í huga að feður, afar, frændur og vinir voru líka eitt sinn drengir að læra lestur. Já og stúlkur njóta líka góðs af öllu því sem vel er gert í lestrarmálum í samfélaginu okkar.

Allir með á www.skolaslit.is

Kolfinna Njálsdóttir
F.h. stýrihóps um lestrarupplifunina Skólaslit.