HS Veitur
HS Veitur

Aðsent

Einar Björgvin Kristinsson  – minningarorð
Miðvikudagur 29. desember 2021 kl. 14:18

Einar Björgvin Kristinsson – minningarorð

Í dag 29. desember hefði elsku pabbi minn, Einar Björgvin Kristinsson, orðið níræður en hann lést á hjartadeild Landspítalans þann 11. maí síðastliðinn. Jarðarförin fór fram í kyrrþey að hans ósk. Í tilefni afmælisdagsins minnist ég hans hér með kærleik og söknuð í hjarta en pabbi var öðlingur mikill sem tók á móti öllum með sínu hlýja brosi og húmorinn aldrei langt undan.

Pabbi fæddist og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur í hópi sjö systkina þar sem lífsbaráttan var hörð og fór hann fljótt að vinna sér inn aur með því að selja blöð og bíómiða. Ungur fór hann í sveit í Borgarfirði og vann hann þar bæði sem mjólkurpóstur og kaupamaður. Hann var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann réð sig sem kokk á bát frá Vestmannaeyjum með matreiðslubók að vopni því ekki kunni hann að elda. Þar lenti hann í sínum fyrsta lífsháska þegar hann féll útbyrðis en var bjargað af öðrum báti, sagði hann okkur þá sögu oft þegar hann var togaður upp á hárinu og í hann hellt brennivíni til að ná í hann hita. Sjómennskan og störf henni tengdri urðu hans ævistarf. Eftir útskrift úr Stýrimannaskólanum árið 1955 varð hann stýrimaður á togara frá Patreksfirði og vann á vertíð í Vestmannaeyjum. Síðar réð hann sig sem fyrsta stýrimann á Austfirðingi sem lenti í hamfaraveðri við Nýfundnaland í janúar 1959 þar sem þeir börðust fyrir lífi sínu í nokkra daga. Þetta varð eitt mannskæðasta sjóslys á Íslandi því 30 menn fórust með skipinu Júlí þessa örlagaríku daga.

Pabbi og mamma, Steinunn Sigþórsdóttir, giftu sig árið 1956 og árið 1960 fluttu þau til Keflavíkur þar sem þau hófu að reka saltfiskverkun í Grindavík. Tveimur árum seinna stofnaði pabbi útgerðina Sjöstjörnuna hf. ásamt Kristni bróður sínum er þeir tóku bátinn Stjörnuna RE á leigu en pabbi talaði um að Stjarnan hafi verið þeim mikið happaskip. Það var mikill stórhugur í þeim bræðrum og keyptu þeir í kjölfarið fjölda báta og gerðu út, fyrst frá Grindavík og síðar Keflavík þangað til að þeir byggðu fiskvinnslu í Njarðvík. Útgerðin vatt upp á sig og þegar mest var störfuðu 200 manns hjá Sjöstjörnunni, til sjós og lands.  Sjöstjarnan varð á tímabili afkastamesta frystihús Suðurnesja og fullkomnasta fiskiðjuver á Íslandi og mikill brautryðjandi á mörgum sviðum fiskvinnslu. Sjöstjarnan var fyrsta fyrirtækið utan gömlu Sölusamtakanna sem fékk útflutningsleyfi til að flytja frystan fisk og humar til Bandaríkjanna. Á þeim tíma var það  ekki auðsótt mál og þurfti pabbi oft að fara á fund ráðherra og ráðamanna til að berjast fyrir útflutningsleyfum fyrir afurðirnar. Þeir keyptu fyrsta skuttogarann sem kom á Suðurnesin, Dag­stjörnuna, sem var stórfrétt á þeim tíma.

Árið 1985 hættu þeir bræður rekstri en pabbi hélt áfram að starfa við sjávarútveg. Hann rak fiskvinnslu og útflutningsfyrirtæki í Vogunum og á síðustu árum starfsævinnar rak hann útflutningsfyrirtæki í sjávarafurðum sem aðallega flutti út ferskan fisk á Bretlandsmarkað.

Pabbi var mjög félagslyndur og sat í hinum ýmsu stjórnum sem tengdust bæði vinnu hans og áhugamálum. Hann var m.a. formaður Vinnuveitendasambands Suðurnesja og í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna, í stjórn Golfklúbbs Suðurnesja, var meðlimur í Rotary og fleira.

Pabbi var alla tíð mjög póli­tískur en hann gekk ungur í Sjálfstæðisflokkinn og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og er gaman að segja frá því að hann sat síðast Landsfund árið 2018, þá 87 ára gamall sem fulltrúi Garðabæjar.

Pabbi stundaði stangaveiði af mikilli innlifun og notaði á sínum bestu árum hvert tækifæri til að renna fyrir lax en hann veiddi síðast í Elliðaánum þegar hann var 86 ára og naut þess í botn. Hann var mikill golfari og byrjaði að spila í Leirunni hjá GS fyrir rúmum 40 árum en síðustu áratugina spilaði hann á Oddinum og GKG þar sem hann átti sína góðu golffélaga. Pabbi var einstaklega hjartahlýr og barngóður og voru barnabörnin honum allt. Bestu stundirnar voru að spila saman golf í sumarbústað okkar í Kiðjabergi og á Flórída með okkur fjölskyldunni. Pabbi hafði mjög gaman af því að spila bridge, sagði það sína hugarleikfimi, en hann spilaði reglulega með eldri borgurum í Gullsmára.

Pabbi var mikill leiðbeinandi og auðvelt að leita til hans en hann var sá í stórfjölskyldunni sem flestir leituðu til ef eitthvað var að og var hann alltaf fús til að hjálpa og veita ráð. Pabbi var ótrúlega duglegur og framkvæmdi meira á sinni ævi en flestir og var aldrei hræddur að takast á við nýjar áskoranir. Við pabbi vorum mjög náin og þegar kveðjustundin kom þá er svo margs að minnast og svo óendanlega margs að sakna en upp úr stendur þakklæti fyrir að hafa átt hann sem pabba, hann var einstakur.

Með Guð blessa minningu þína elsku pabbi,

þín Auður.