Aðsent

Allir með!  – Látum okkur aðra varða
Laugardagur 26. september 2020 kl. 07:05

Allir með! – Látum okkur aðra varða

Af hverju þarf heilt þorp til þess að ala upp barn? Er það ekki bara hlutverk foreldra að ala upp sitt eigið barn?

Jú, auðvitað. Foreldrar hafa gífurlega mikil áhrif á uppeldi barna sinna, sjálfsmynd og vellíðan. Frá foreldrum fær barnið hvatningu, hlýju, umhyggju og stuðning. En hvað ef eitthvað af þessu vantar í uppeldinu? Hvaðan fær barnið þá þann stuðning sem það þarf á að halda?

Kennarar koma þar sterkt inn, þeir geta haft mikil áhrif á barnið, hvatt það áfram og ýtt undir styrkleika þess. Kennarar geta verið þessi mikilvægi einstaklingur sem barnið þarf á að halda. En hvað ef styrkleikar barnsins eru ekki í náminu? Barnið hefur ef til vill frábæra hæfileika í fótbolta, dansi eða fimleikum, íþróttaþjálfarar geta t.d. flutt fjöll og hjálpað þessum börnum í að nýta sína hæfileika, styrkja sjálfstraust þeirra og hjálpað þeim að finna sína hillu og þar með geta þau náð árangri, stundum framúrskarandi árangri. Sum börn hafa aftur á móti lítinn áhuga á námi eða íþróttum, þá eru starfsmenn frístundaheimila eða félagsmiðstöðva frábærir til þess að styrkja barnið á annan hátt en námslega með því að spjalla, tengjast, gefa þeim tíma og styðja á þeirra forsendum. Tónlistarkennarar, aðrir listgreinakennara og skátaforingjar geta líka haft gífurleg áhrif á hvort barnið blómstri á sínum rétta vettvangi. Utan um allt þetta fólk, alla þjálfarana, kennarana, stuðningsfulltrúana og þá sem starfa með börnum og unglingum þarf að vera sterk stjórnsýsla og réttlátt samfélag sem styður við hvern og einn.

Reykjanesbær gerir sér grein fyrir að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Í verkefninu „Allir með“ í samstarfi við KVAN þjálfum við kennara í að búa til góðan og farsælan bekkjarbrag, við þjálfum nemendur í 9. bekk í jafningjafræðslu svo þau geti spjallað við yngri börnin, við höldum fyrirlestra og tölum við yfir 6.000 manns, starfsmenn í öllum skólum, íþróttaþjálfara, stuðningsfulltrúa og fleiri. Við sendum út sömu skilaboð til allra. Við ætlum að fagna fjölbreytileika og láta okkur aðra varða. Við viljum styðja og hvetja börn og unglinga, veita þeim umhyggju og hlýju og aðgengi að eigin styrkleikum.

Anna Steinsen,
eigandi og þjálfari.