Viðskipti

Velgengni fyrirtækisins okkar frábæru starfsmenn
Feðgarnir Margeir Jónsson og Jón Gunnar Margeirsson. VF-mynd: Páll Ketilsson
Laugardagur 2. apríl 2022 kl. 07:55

Velgengni fyrirtækisins okkar frábæru starfsmenn

Það var mikið um dýrðir hjá grindvíska fyrirtækinu Jón og Margeir ehf. sl. föstudagskvöld. Þá komu saman núverandi og fyrrverandi starfsmenn fyrirtækisins ásamt fulltrúum fjölmargra viðskiptavina til að fagna 30 ára afmæli fyrirtækisins. Höfuðstöðvunum við Seljabót hafði verið breytt í forláta skemmtistað. Feðgarnir Margeir Jónsson og Jón Gunnar Margeirsson eru miklir aðdáendur Volvo. Gylltir Volvo-bílar eru einkennandi fyrir fyrirtækið og því var barinn í veislunni smíðaður úr yfirbyggingu af Volvo. Afmælisveislan tókst vel en þar tróðu m.a. upp landskunnir tónlistarmenn eins og Helgi Björnsson og Jón Jónsson. En rétt fyrir fjörið hittum við þá feðga og tókum þá tali.

Jón og Margeir ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var í Grindavík í upphafi árs 1992. Stofnendur og eigendur þess eru Jón Gunnar Margeirsson og faðir hans, Margeir Jónsson. Margeir hafði þá verið með rekstur undir eigin nafni frá árinu 1970, fyrst um sinn með vörubíl en fljótlega einnig kranabíl. Í dag eru enn gerðir út tveir öflugir og vel útbúnir kranabílar undir nafni Margeirs en merkjum og litum Jóns og Margeirs ehf. Með þeim eru hin ýmsu verkefni leyst af hendi fyrir afar fjölbreyttan hóp viðskiptavina þessara tveggja fyrirtækja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Starfsemi Jóns og Margeirs ehf. hófst að sama skapi með einum bíl. Sá var með lokuðum flutningskassa enda félagið upphaflega stofnað með þá hugsjón að flytja sjávarútvegsafurðir á milli landshluta. Sú starfsemi fór ört vaxandi og í dag eru gerðir út alls sextán bílar, níu kælivagnar, tvær gámalyftur, átta malarvagnar, flatvagn og öflugur vélaflutningavagn. Volvo vörubílar eru einkennandi fyrir flotann hjá þeim feðgum og liturinn er gylltur.

Árið 2015 fóru eigendur að horfa til betri nýtingar tækjakosts á ársgrundvelli og ákváðu þeir því að fjárfesta í jarðvélum. Sú eining innan félagsins hefur einnig dafnað vel undanfarin ár og hefur þar áunnist gott orðspor í jarðvinnuverkefnum fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga í Grindavík og nágrannabæjum á Suðurnesjum og Suðurlandi.

Jón og Margeir ehf. eru til húsa að Seljabót 12 í Grindavík. Þar á félagið húseign sem skiptist upp í skrifstofu, verkstæði, þvottaaðstöðu og aðstöðu starfsfólks. Árið 2018 var ákveðið að ráðast í endurbætur og viðbyggingu við húsnæðiskost félagsins þar sem byggð var þvottaaðstaða fyrir tækjakost félagsins sem þó er aðskilin frá verkstæðinu. Á verkstæðinu er viðhaldi og viðgerðum tækja sinnt auk þess sem þar hefur verið starfrækt hliðarbúgrein, ef svo má kalla, frá haustinu 2019 en þá fjárfestu Jón og Margeir ehf. í bílalyftum og dekkjavélum og opnuðu dekkjaverkstæði fyrir allar stærðir og gerðir bíla. Með því jókst nýtingin á húsnæði og verkstæðismanni og hefur dekkjaverkstæðið fengið góðar viðtökur.

Við stofnun félagsins störfuðu einungis tveir starfsmenn hjá félaginu en starfsfólkið telur tuttugu og tvo í dag. Starfsfólkið er reynslumikið og áreiðanlegt, hvort sem það er í flutningum, stjórnun vinnuvéla við jarðvinnuverkefni, á verkstæði eða skrifstofu. Hjá félaginu er lagður metnaður í að bjóða upp á áreiðanlega, fjölbreytta og lausnamiðaða þjónustu. Verkefni félagsins frá degi til dags snúa að því að þjónusta þau fyrirtæki sem lengi hafa verið í hópi viðskiptavina okkar. Staða félagsins er góð og mikil verkefni framundan bæði í flutningum, malbikun og jarðvinnu.

Útsendarar Víkurfrétta tóku hús á þeim feðgum, Margeiri Jónssyni og Jóni Gunnari syni hans, þegar þeir voru að leggja lokahönd á undirbúning fyrir afmælisveisluna í Grindavík sl. föstudag. Það hefur staðið til í nokkurn tíma að halda upp á afmæli fyrirtækisins en vegna samkomutakmarkana útaf kórónuveirufaraldri hefur ekki verið hægt að blása til veislu fyrr en núna. Fyrsta spurning blaðamanns var að forvitnast um forsöguna, því Margeir hefur verið á vörubíl í rúma hálfa öld.

Byrjaði 1970 með vörubíl með krana

Margeir: „Ég eignaðist minn fyrsta vörubíl 1. nóvember 1970. Ég byrjaði þá á vörubílastöðinni í Grindavík og hef verið með vörubíla síðan þá. Ég var að flytja það sem til féll, fisk, sand, efni og annað. Ég kaupi fljótlega krana og set á bílinn og hef nánast verið með krana óslitið síðan og allavega 30 síðustu árin.“

- Hvernig var andinn í Grindavík á þessum árum eftir 1970?

Margeir: „Hann var góður. Það var mikil traffík og mikið að gera í kringum útgerðina og mest á veturna. Það var hægara fyrst yfir sumartímann en svo fór það að breytast. Eftir Vestmannaeyjagosið 1973 verður mikil uppbygging hérna í Grindavík, það var verið að leggja Grindavíkurveginn og vinnan jókst, fiskflutningarnir og allt sem tilheyrir því.“

- Ég verð að spyrja þig út í það þegar Eyjahúsin svokölluðu komu og til varð nýtt hverfi í Grindavík. Það hefur verið sérstakt að sjá heilu byggðirnar rísa?

Margeir: „Jú, það var það. Þarna var unnin mjög langur vinnudagur, langt fram á kvöld. Það var mikil pressa að leggja göturnar og gera púða undir húsin. Mig minnir að hvert hús hafi verið í fjórum einingum og það var spennandi að sjá þegar þeir komu Svíarnir með húsin. Þeim var sturtað af bílunum og raðað saman. Það var greinilegt að þeir voru búnir að gera þetta mjög lengi.“

Fyrirtækið stækkaði hratt

Jón Gunnar, sonur Margeirs, var ekki hár í loftinu þegar hann var byrjaður að flækjast með pabba sínum í vörubílnum út um allar koppagrundir. Það þurfti því ekki að koma á óvart að þeir myndu stofna saman fyrirtæki um vörubíla.

Jón Gunnar: „Það var árið 1992 sem við stofnum Jón og Margeir ehf. Leiðin lá þangað. Ég var búinn að vera að fikta í þessu dóti í mörg ár, vera í kringum þetta og alast upp í þessu. Við sátum saman eitt kvöld og úr varð að við stofnuðum fyrirtækið. Við kaupum okkur fyrst sendibíl eða flutningabíl og fórum að keyra fisk. Fljótlega vorum við komnir með trailer, farnir að keyra malbiki, svo gámalyftu og keyra gámum fyrir fyrirtækin hér. Þetta hefur aðeins undið upp á sig í seinni tíð.“

- Var stefnan fljótlega tekin í þá átt að vera stærri og meiri?

Jón Gunnar: „Við vorum fljótlega eða ári síðar komnir með þrjá eða fjóra bíla og fleiri starfsmenn bættust í hópinn. Þetta vatt upp á sig og varð aukin vinna. Það var mikil breyting hér í fiskhúsunum og fór að færast meira út í gáma en var áður. Þegar togararnir komu í land var öllu landað í gáma, þannig að þetta varð viðameira.“

- Hvað er þetta orðin mikil starfsemi í dag?

Jón Gunnar: „Við erum tuttugu og tvö hérna í dag og erum með sextán bíla og fjórar gröfur. Við fórum í jarðvinnudeildina 2016 og þetta heldur undið upp á sig. Við höfum verið með verkefni fyrir Sveitarfélagið Voga, Grindavík og Sveitarfélagið Ölfus, ásamt fullt af öðru í kringum þetta. Þetta passar vel með annarri vinnu hjá okkur. Þegar það er rólegra í fiskflutningum á sumrin þá erum við í jarðvinnu, þannig að þetta fer vel saman í dag.“

- Þannig að það er ekki lengur einn karl á vörubíl með krana?

Margeir: „Nei, það er orðin mikil breyting. Nú kíkir maður á þetta annað slagið og er bara með góða menn á kranabílunum. Ég tek svona dag og dag, ef þess þarf með, en ég ætla að fara að hægja á því. Við erum með flotta stráka, alla alveg 150% á öllum bílum og tækjum. Það er lykillinn að þessu.“

Í ferðalag með fjölskylduna á vörubílnum

Margeir segir að synirnir, Jón Gunnar og Árni, hafi varla verið fermdir þegar þeir voru farnir að hjálpa föður sínum og byrjaðir að létta undir. Hann segir að þeir hafi ekki verið háir í loftinu þegar þeir voru farnir að fara með pabba sínum í vörubílinn. Það hafi ekki verið komnir bílstólar eða öryggisbelti á þeim árum en allt hafi farið vel.

Margeir rifjar upp að einu sinni hafi verið farið í viku ferðalag í sumarbústað í Borgarfirði og ferðalagið hafi verið farið á vörubílnum með farangurinn á pallinum.

„Það var farið í útilegur á vörubílnum, því það var enginn annar bíll á heimilinu og það var bara gaman að þessu,“ segir Margeir og Jón Gunnar blandar sér í umræðuna og segist hafa grun um að hann hafi verið getinn í vörubíl pabba síns. „Við þurfum kannski aðeins að fara yfir þetta með mömmu,“ segir hann og þeir hlæja báðir.

Jón Gunnar: „Velgengni fyrirtækisins er þessir frábæru starfsmenn sem við erum með og geggjaðir viðskiptavinir og að fá að vera hlekkur í keðjunni hjá þeim. Ég get alveg haldið því fram að við erum með landslið af bílstjórum. Við erum heppnir með það hvað það hefur laðast að okkur mikið af góðum starfsmönnum.“

- Fiskflutningar eru stór þáttur í ykkar starfsemi?

Jón Gunnar: „Flutningur á fiski er gríðarlega mikill. Á haustin hafa Grindavíkurbátarnir verið að landa á Siglufirði, Ísafirði og Djúpavogi. Við sækjum fiskinn á þessa staði í kældum vögnum. Það er mikið fjör hérna frá því um miðjan ágúst og fram yfir jól.“

Rokið er óvinur vörubílstjórans

Jón Gunnar segir lítið mál að keyra í snjó og hálku enda flutningabílarnir frábærir og auðveldir í akstri. Rokið er mesta áskorun bílstjóranna í dag. Það sé erfitt að ráða við það og þá þurfi bílstjórarnir að bíða af sér veðrið.

Jón Gunnar: „Við höfum blessunarlega verið lausir við tjón. Það skiptir máli að vera með góða starfsmenn sem lesa aðstæður vel og meta hvernig hlutirnir eru. Út á það gengur þetta og mikilvægt að mannskapurinn og farmurinn komsti heill heim.“

Fulllestaður fiskflutningabíll er 49 tonn, þannig að farmurinn, kör, fiskur og ís er um 26 tonn af heildarþyngdinni.

Mikil breyting hefur orðið á vörubílum frá því Margeir byrjaði fyrir rúmri hálfri öld. Þá var bíllinn lítið annað en gírstöng og stýri. Ekki þetta rafmagnsvesen og bilanir sem því fylgja.

Margeir: „Miðstöðvarnar voru stundum ekki burðugar, þannig að stundum var maður bara með kósan-gaskútinn við hliðina á sér til að hafa hita í frostunum, þannig að breytingin er alveg óskaplega mikil. Að keyra svona bíla eins og við erum með í dag er léttara en að vera á fólksbíl, það er ekki spurning.“

Dottað fram á stýrið

Þegar Margeir byrjaði með vörubíl á sínum tíma var vinnan helst í því að keyra fiskinn frá bryggjunum og upp í fiskvinnsluhúsin. Þá var mikið um báta af öllum Suðurnesjum sem lönduðu í Grindavík og fiskinum m.a. ekið til Keflavíkur, í Garð, Sandgerði, í Voga og inn í Hafnarfjörð. Á þessum árum komu flutningaskipin til Keflavíkur og þangað var sótt salt og afurðir fluttar til Keflavíkur til útskipunar, hvort sem það var beinamjöli, saltsíld eða saltfiski, áður en höfnin í Grindavík lagaðist.

Á fyrstu árum fiskimjölsverksmiðjunnar í Grindavík var líka mikil vinna fyrir vörubíla, því loðnunni var ekið frá vörubílum frá skipshlið og í verksmiðjuna. Margeir segir að í löndunum hafi þetta verið vinna sólarhringana út. Þá voru ekki vökulög eins og í dag og menn dottuðu bara fram á stýrið ef það kom stund.

Algjör unaður að keyra þessa vörubíla

Í dag eru breyttir tíma og aðbúnaður bílstjóra orðinn allt annar.

Jón Gunnar: „Kerfið er orðið flóknara en það er auðveldara að keyra bílana og algjör unaður í dag. Vökulögin segja að það megi keyra í tíu tíma á dag. Þú keyrir í fjóran og hálfan tíma og verður að taka þér þriggja kortera hlé og svo heldur þú áfram. Þetta er öðruvísi í dag en áður en þetta venst.“

Margeir: „Þetta mátti breytast frá því sem þetta var en öllum bílstjórum í dag finnst þetta heldur stíft. Það væri allt í lagi að geta ekið í tíu til tólf tíma, en það er bannað. Í dag má keyra níu tíma á sólarhring með undanþágu upp í tíu tíma. Og allir vörubílar eru innsiglaðir í 90 km./klst. í dag, þannig að það er ekki hægt að komast hraðar.“

Þeir feðgar eru sammála um að það sé gott að reka fyrirtæki í Grindavík og það sé yfirleitt nóg að gera. Hjá fyrirtækinu er líka lögð áhersla á góða símsvörun og út á það gangi þetta, að vera alltaf tilbúinn og veita góða þjónustu. Það sé grunnurinn að því að menn komi aftur. Þeir eru sammála um að fyrirtækið sé með trygga viðskiptavini í Grindavík og Suðurnesjum öllum. Viðskiptavinir sem hafa verið hjá fyrirtækinu í fjölda ára.

Jón og Margeir ehf. // 30 ára afmælisfagnaður