Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Viðskipti

Sbarro hefur opnað pop-up veitingastað á Keflavíkurflugvelli
Mánudagur 8. maí 2023 kl. 11:23

Sbarro hefur opnað pop-up veitingastað á Keflavíkurflugvelli

Veitingastaðurinn Sbarro hefur opnað veitingarými á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða svokallað pop-up rekstrarrými á verslunar- og veitingasvæði sem verður starfrækt tímabundið á flugvellinum. Boðið verður upp á úrval af nýbökuðum pizzum og pastaréttum ásamt sérstökum morgunverðarréttum.

Isavia auglýsti nýverið laus svokölluð pop-up rekstrarrými í leit að aðilum til að reka veitingasölu í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar. Rýmið er staðsett á biðsvæði eftir landamæri fyrir farþega á leið til Norður-Ameríku og Bretlands sem dæmi. Stór hluti eru tengifarþegar sem dvelja að meðaltali um klukkustund í flugstöðinni og var því lögð rík áhersla á afgreiðsluhraða, þekkta vöru og gæði í vali á veitingaaðila.

„Opnun Sbarro hefur farið fram úr væntingum og við upplifum mikla ánægju viðskiptavina með veitingastaðinn,“ segir Gunnhildur Erla Vilbergsdóttir, deildastjóri verslana og veitinga hjá Isavia. „Við erum að undirbúa okkur fyrir eitt stærsta sumarið okkar á Keflavíkurflugvelli með mjög stórum álagspunktum á þessu svæði og því passar Sbarro einstaklega vel inn í veitingaflóruna. Þekkt vara, góð gæði og mikill hraði.“

Farþegafjöldi hefur aukist mikið á síðustu mánuðum en Keflavíkurflugvöllur er einn af fáum flugvöllum heims sem hafa náð fullri endurheimt farþega eftir heimsfaraldur. Farþegaspá Isavia gerir ráð fyrir að 7,8 milljón farþega fari um Keflavíkurflugvöll árið 2023 sem yrði þriðji mesti fjöldi farþega um völlinn á einu ári frá upphafi.

Sbarro veitingastaðurinn verður til eins árs á fyrstu hæð í suðurbyggingu Keflavíkurflugvallar og mun þjónusta farþega sem eru á leið frá landa utan Schengen-svæðisins. Sbarro er einnig með útibú í 10-11 í komusal Keflavíkurflugvallar.