Viðskipti

Keflvíkingur opnar stærstu Partyland verslun í Evrópu
Miðvikudagur 8. nóvember 2023 kl. 14:31

Keflvíkingur opnar stærstu Partyland verslun í Evrópu

Stefán Ragnar Guðjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, mun opna Partyland-verslun í Holtagörðum í Reykjavík 17. nóvember næstkomandi. Partyland er alþjóðleg keðja verslana sem sérhæfir sig í vörum fyrir veisluhald. Dóttir hans Kamilla Birta verslunarstjóri. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu.

Verslunin verður rúmlega 500 fermetrar að stærð og verður hún því stærsta Partyland-verslun í Evrópu. Vörunúmerin verða á bilinu 6-8 þúsund talsins og verður hvert og eitt tilefni hólfaskipt í búðinni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stefán segir að hugmyndin hafi sprottið upp þegar hann hætti hjá Samkaupum í fyrra eftir að hafa unnið þar í 26 ár. Hann fór þá að horfa í ýmsar áttir og þessi hugmynd datt inn á borð hjá honum.

„Mér buðust ýmis tækifæri þegar ég hætti hjá Samkaupum, en ég var ákveðinn í því að hefja rekstur fyrir eigin vélarafli. Ég hafði kynnst Partyland-verslunum á Norðurlöndum og fannst tilvalið að opna eina slíka hér á landi. Ég held að við séum fyrst og fremst að gera veislum betri skil en við höfum gert áður. Þegar þú kemur í þeim tilgangi að fagna þá er allt til í búðinni og kannski jafnvel meira en þig hefur órað. Í Partylandi verður meira úrval og betra verð en áður hefur þekkst hér á landi,“ segir Stefán.

Stefán með Ásdísi Rögnu Einarsdóttur eiginkonu sinni. Kamilla Birta er á milli þeirra.