atNorth ræður tvo lykilstjórnendur
Gagnaversfyrirtækið atNorth hefur ráðið tvo nýja stjórnendur í þróunarteymi fyrirtækisins. Bára Hlín Kristjánsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður verkefnastjórnunar og vörustjórnunar og Hallgrímur Örn Arngrímsson forstöðumaður þróunar og afhendingar nýrra gagnavera á Íslandi.
Fyrir komuna til atNorth starfaði Bára Hlín hjá Sýn þar sem hún var forstöðumaður verkefnastofu og ferlaumbóta. Þar áður starfaði hún hjá Marel og leiddi þar margvísleg umbótaverkefni. Þar áður vann hún á sviði markaðs- og sölumála í hugbúnaðarþróun og er meðstofnandi handverksbrugghússins Álfs.
Hallgrímur Örn kemur til atNorth frá Verkís þar sem hann starfaði frá 2016. Hann býr að yfir tveggja áratuga reynslu sem byggingarverkfræðingur og verkefnastjóri og kemur til með að bera ábyrgð á afhendingu nýjustu stækkana atNorth á Íslandi. Hallgrímur er með B-stig IPMA vottun í verkefnastjórnun og hefur stýrt fjölmörgum stórum verkefnum, meðal annars á Keflavíkurflugvelli og nýverið við kortlagningu sprungna í Grindavík fyrir Almannavarnir. Áður starfaði hann meðal annars hjá Sweco í Noregi og hjá verkfræðistofunni Eflu.
„Við bjóðum Báru Hlín og Hallgrím Örn hjartanlega velkomin og hlökkum til samstarfsins við þau. Þau færa með sér mikla reynslu og sérfræðiþekkingu sem kemur til með að styrkja hjá okkur teymi þróunar og afhendingar. Í örum vexti grundvallarinnviða eins og gaqnavera liggur mikið við að ný þróunarverkefni og stækkanir séu afhent á réttum tíma, í samræmi við ítrustu kröfur viðskiptavina,“ segir Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar hjá atNorth.
Bára Hlín er með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2019 og meistaragráðu í samanburðarbókmenntum frá Edinborgarháskóla 2007. BA námi í samanburðarbókmenntum lauk hún frá Háskóla Íslands 2005.
Hallgrímur Örn er með M.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá DTU, danska tækniháskólanum, 2009 og B.Sc. gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands 2003.







