Viðskipti

Ætla að halda áfram og sjá hvert vegurinn leiðir mig
Árni Geir Fossádal Rúnarsson
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
sunnudaginn 17. júlí 2022 kl. 07:30

Ætla að halda áfram og sjá hvert vegurinn leiðir mig

„Það er búið að ganga miklu betur en ég þorði að vona. Það er alltaf einhver rödd aftast í hausnum á mér sem segir mér að fólk sé ekki tilbúið í þetta,“ segir frumkvöðullinn Árni Geir Fossádal Rúnarsson. Árið 2021 stofnaði Árni rafmagnsbílaleiguna 99 Electric Car Rental en það er hugmynd sem hann hann hafði verið með í kollinum lengi. Hann er að læra alþjóðleg viðskipti í Robert Gordon University í Aberdeen og á sumrin sér hann um bílaleiguna – en af hverju rafmagnsbílar?

„Þegar ég byrjaði var enginn með einungis rafmagnsbíla í útleigu. Ég geri mér grein fyrir því að ég væri örugglega búinn að græða meiri pening á því að kaupa tuttugu Duster-a og leigja þá út en ég var með ákveðna mynd í hausnum sem ég vildi keyra á en ekki gera það sem allir aðrir eru að gera,“ segir Árni.

Varð að ná heilu sumri

Árni vann á bílaleigunni Blue Car Rental þegar notkun rafmagnsbíla fór að færast í aukana. Á þeim tíma furðaði hann sig á því að stórar bílaleigur væru ekki að bjóða upp á þann kost. „Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera einhver ástæða fyrir því og ýtti þá þessari hugmynd aðeins til hliðar,“ segir Árni og bætir við: „Hún kviknaði síðan aftur á fyrsta árinu mínu í skólanum, sem sagt í fyrra. Ég fór þá að vinna í þessu og ákvað að prófa þetta. Ég vissi að það væru fleiri en 250 hleðslustöðvar á Íslandi og það eru til bílar sem komast milli 300 og 600 kílómetra í einu svo ég hugsaði að það ætti alveg að ganga fyrir venjulegt ferðalag í kringum landið. Ég ákvað að byrja á því að kaupa mér þá þrjá bíla og sjá hvernig þetta virkar. Ég náði bara einum mánuði í útleigu í fyrra en hugarfarið mitt var það að ég yrði að ná heilu sumri, sem er einmitt það sem er að gerast þetta sumar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Aðspurður hvernig hefur gengið með fyrirtækið hingað til segir hann að útleigur hafi gengið vonum framar. „Fólk sem er að leigja bílana hjá mér segir gjarnan við mig að því finnist Ísland svo fallegt land og þess vegna langi því að leggja sitt að mörkum til að halda því þannig. Ég segi þá alltaf við þau að mér finnist skrítið að Ísland sé ekki með ákveðna frumkvöðlastefnu þegar kemur að rafmagnsbílum. Við lifum náttúrlega á fegurðinni á landinu hérna og við þurfum að halda í hana. Síðan er hægt að koma með skiptar skoðanir um hvort að rafmagnsbílar séu í raun umhverfisvænir en með þeim er fólk að spara sér upp að 70% af peningnum sem fer í bensín og það er eitthvað sem fólk er almennt ánægt með,“ segir Árni.

Persónuleg þjónusta

Bílaflotinn samanstendur af fimm rafmagnsbílum en Árni segir það vera vegna þess að hann sé einn að sjá um allt ferlið sem viðkemur hverjum bíl. „Ég er með þessa fimm bíla, aftur á móti er ég bara einn með þetta allt og ég vil veita viðskiptavinum persónulega þjónustu. Ég heyri í þeim og athuga hvernig leigan hefur verið og hvernig allt er að ganga þegar hún er hálfnuð. Ég reyni að vera til staðar fyrir viðskiptavinina eins og ég get,“ segir Árni. Vinir hans hafa hjálpað honum mikið með bílaleiguna, aðspurður hvernig hann launi þeim segir hann: „Ég býð þeim út að borða eða eitthvað skemmtilegt.“

Hann segir drauminn vera að hann og vinir hans geti unnið á bílaleigunni saman en segir væntingastjórnun vera stóran part af þessu verkefni hans. „Ég er samt að passa mig að vera ekki með of miklar væntingar. Á meðan þetta er svona lítið langar mig ekki að segja hvert endanlega markmiðið er. Þetta er bara lítið verkefni sem ég er með núna og ætla að vinna í og reyna að láta ganga eftir bestu getu, ef það gengur ekki þá er það bara svoleiðis og maður lærir af því,“ segir Árni.

Aðspurður hvort bílarnir séu kyrrstæðir yfir veturna svarar hann játandi. „Þetta eru náttúrlega rafmagnsbílar og ég hugsa að ég verði ekki með leigu á veturna fyrr en að bílarnir byrja að komast lengra, kuldinn hefur svo mikil áhrif á rafmagnsnotkunina. Ég hef líka alveg hugsað út í það að vera með eitthvað annað í boði tengt bílaleigunni yfir vetrartímann eins og til dæmis gistingu eða eitthvað þannig en það eru bara pælingar,“ segir hann.

Hamingjan númer eitt, tvö og þrjú

Árni er með umhverfisvæn og sjálfbær viðmið þegar kemur að bílaleigunni. „Hún er náttúrlega umhverfisvæn, það eru engir pappírar í ferlinu og allt fer fram á netinu. Síðan er ég líka að reyna að skapa það andrúmsloft að það séu engir þjónustufulltrúar heldur nálgast fólk þjónustuna á þægilegan máta án óþarfa hika í ferlinu. Það er samt eitthvað sem verður líklega ekki að veruleika fyrr en ég er búinn með skólann,“ segir hann.

Aðspurður hver markmið hans er í stóra samhenginu segir hann: „Þetta er ógeðslega erfið spurning. Ég segi alltaf að mig langi að vera hamingjusamur, fjölskylda mín sé hamingjusöm og að ég geti veitt þeim eins mikinn stuðning og ég get, bæði fjárhagslega og almennt. Ég er ekki með það markmið að verða forstjóri í stóru fyrirtæki á ákveðnum aldri eða ná einhverri gráðu fyrir einhvern tíma. Ég ætla að halda áfram og sjá hvert vegurinn leiðir mig. Það verður kannski eitthvað til úr því eða kannski ekki. Aðalatriðið er að vera á góðum stað til þess að geta hjálpað fjölskyldunni og að allir séu glaðir.“