Pistlar

Vertíð norðurljósanna
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 21. október 2022 kl. 07:16

Vertíð norðurljósanna

Myrkrið og kuldinn eru hægt og rólega að ná yfirhöndinni og þá hefst reyndar önnur vertíð, vertíð sem á í raun ekkert sameiginlegt með sjávarútvegi en það er vertíð norðurljósanna. Ansi margir staðir á Suðurnesjum sem ferðamenn fara á til þess að sjá þessi fallegu norðurljós. Sjómenn eru á vaktinni líka á næturnar og þeir líka sjá þessi ljós, þó svo að þeir taki ekki ferðamenn með til þess að skoða þau.

Núna, þegar október er meira en hálfnaður, er enginn línubátur kominn eða byrjaður á veiðum frá Suðurnesjum. Þeir eru allir ennþá fyrir austan og norðan. Reyndar hefur bátunum fækkað mjög mikið og það sést ansi vel þegar skoðaðir eru bátarnir sem eru í slippnum í Njarðvík. Þar eru t.d. Beta GK og Bergur Vigfús GK sem hafa báðir verið á línu en bíða þar uppi í slippnum með von um að kvótinn verði aukinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lítum aðeins á línubátana fyrst ég er byrjaður að skrifa um þá. Sighvatur GK er kominn með 273 tonn í tveimur róðrum og mest 147 tonn, Páll Jónsson GK 211 tonn í tveimur og mest 111 tonn og Fjölnir GK 184 tonn í tveimur og mest 98 tonn, allir að landa á Skagaströnd og það þýðir að trukkarnir frá Jóni og Margeiri í Grindavík eru í ansi miklum fiskflutningum. Valdimar GK er með 180 tonn í tveimur og hluta af þeim afla var landað í Grindavík. Minni bátarnir; þá er Vésteinn GK með 84 tonn í sjö róðrum, Margrét GK 81 tonn í níu, Auður Vésteins GK 76 tonn í níu og Gísli Súrsson GK 59 tonn í átta,  þeir eru allir fyrir austan. Óli á Stað GK 63 tonn í tíu á Siglufirði, Daðey GK 35 tonn í sex, Sævík GK 41 tonn í sjö, Hulda GK 40 tonn í sjö, Dúddi Gísla GK 23 tonn í fimm og Hópsnes GK 15,4 tonn í fjórum, allir á Skagaströnd.

Ef við færum okkur á Suðurnesin og skoðum landanir þar þá er netaveiði bátanna nokkuð góð.  Erling KE er með 71 tonn í sjö löndunum og af því er þorskur 37 tonn og ufsi 21 tonn. Grímsnes GK er fyrir austan að eltast við ufsann og er kominn með 60 tonn í fjórum og af því er ufsi 53 tonn.  Maron GK er með 45 tonn í sjö og mest 12 tonn, hjá honum er mest af þorski eða 45 tonn. Halldór Afi GK 12 tonn í þremur.

Dragnótaveiði er mjög góð eins og var í september og Sigurfari GK er er kominn með 104 tonn í sjö. Þessi bátur endaði aflahæstur allra dragnótabáta í september og október ætlar greinilega að vera góður fyrir áhöfnina á bátnum því þegar þessi orð eru skrifuð þá er Sigurfari GK þriðji hæsti dragnótabáturinn á landinu. Siggi Bjarna GK er með 86 tonn í sjö, Benni Sæm GK 67 tonn í sjö og Maggý VE 32 tonn í sex.

Togararnir eru líka á flakki en þó er meira um það að þeir komi á Suðurnesin og landi. Pálína Þórunn GK er komin með um 150 tonn í þremur og síðasta löndun togarans var í Sandgerði.  Sturla GK er með 158 tonn í þremur og þar af er um 100 tonnum landað í Grindavík. Vörður ÞH hefur landaði 142 tonn í tveimur og Áskell ÞH 40 tonn í einni löndun, báðir í Grindavík.

Jóhanna Gísladóttir GK er kominn með um 270 tonn í fimm löndunum og mestu er landað á Ísafirði. Af þessum fiski er þorski, ýsu og ufsa ekið til vinnslu í Grindavík, t.d. landaði togarinn 87 tonnum á Ísafirði og af þeim afla var 71 tonni ekið til Grindavíkur, það eru líklega um þrír trukkar.

Mjög fáir handfærabátar hafa verið á veiðum. Helst er það að Bjössi, sem eitt sinn var skipstjóri á Andey GK, hefur verið nokkuð duglegur í að róa. Hann hefur komist í fjóra róðra og landað 1,8 tonni, mest ufsa en verð á ufsa á Fiskmarkaði Suðurnesja hefur verið mjög hátt og þó að aflinn sé ekki meiri þá er aflaverðmætið gott.