Pistlar

Þið hafið herinn
Sunnudagur 5. apríl 2020 kl. 07:37

Þið hafið herinn

Hvern gat órað fyrir því að við ættum eftir að upplifa COVID-19 með öllum þeim afleiðingum sem eru að koma í ljós þessa dagana. Við þekkjum afleiðingar falls WOW, bankahruns, brottfarar Varnarliðsins, kvótamissis og fleira. Afleiðingar sem komu verst við okkur Suðurnesjamenn.

Og hvað gerum við nú þegar atvinnuleysi er orðið meira en nokkru sinni fyrr í sögunni. Vonandi ekki jafn langvinnt og það var  eftir bankarhrunið 2008. Það er sérstakt að eitt landssvæði, í þessu tilviki, Suðurnesin, skuli alltaf fara verst út úr þessum áföllum. Ekki einu sinni heldur aftur og aftur. Atvinnuleysi er orðið meira en nokkru sinni fyrr og mun líklega á næstu dögum fara í hæstu tölu sem við höfum upplifað. Við erum að tala um mikinn fjölda fólks sem eru án atvinnu og með skert starfshlutfall. Já, hvað gerum við nú. Eitt af framtíðarverkefnum svæðisins hlýtur að vera að búa til meiri fjölbreytni í atvinnulífinu. Það er greinilega of einsleitt. Það er að segja ef ferðaþjónusta fellur undir þann hatt. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í undanförnum áföllum sem hafa áföll dunið yfir okkur á um það bil 10 til 15 ára fresti, reyndar liðu ekki nema tvö ár frá brottför Varnarliðsins í bankahrun, og alltaf hafa Suðurnesin farið verst út allra landshluta. Á annað þúsund manns störfuðu hjá Varnarliðinu, flestir Suðurnesjamenn. Þeir fengu margir vinnu þegar staðan var góð í svokölluðu góðæri en voru fyrstir til að fá uppsögn í bankahruni. Í bankahruni er ekki hægt að þakka ríkisvaldinu fyrir mikla hjálp til handa Suðurnesjum. Erlendi ferðamaðurinn hjálpaði Suðurnesjamönnum á fætur og landinu öllu.

Aðgerðir ríkisins á tímum Covid-19 eru enn nær allar almenns eðlis. Engar sértækar aðgerðir eru komnar vegna ástandsins á Suðurnesjum sem fær enn einu sinni stærsta skellinn. Í blaði vikunnnar má sjá greinar frá þingmönnunun Birgi Þórarinssyni og Oddnýju Harðardóttur þar sem þau fara yfir þessa stöðu og hvað þurfi að gera. Þau eru bæði í minnihluta í ríkisstjórn en eru þó að reyna. Vonandi verður eitthvað gert. 

Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið saman aðgerðarpakka sem hægt væri að ráðast í, framkvæmdir sem myndu skapa fjölda starfa nú þegar fleiri eru atvinnulausir en nokkru sinni fyrr. Ekki hafa komið viðbrögð ríkisvalds við þeim nema að mjög litlu leyti. En við megum víst ekki vera ósanngjrn og óþolinmóð. Við erum vön að vera þolinmóð. Við erum vön að þurfa að vera þakklát fyrir að hafa haft Varnarliðið og nú flugstöðina. Við höfum sinnt þessum stóru vinnustöðum vel. Við höfum gengið að fjölda starfa en beinn hagnaður hefur ekki runnið til Suðurnesja nema í störfunum. Suðurnesjamenn eiga bara að vera sáttir. Í gamla daga var sagt: Þið hafið herinn og nú hafið þið flugstöðina. Nú þegar allt fer í kalda kol þurfa Suðurnesjamenn að venju að taka stærsta skellinn. Eru vanir því. En er það sanngjarnt?

Á svona skrýtnum tímum gerast samt oft góðir hlutir. Við hjá Víkurfréttum stóðum frammi fyrir þeirri staðreynd að fyrirtæki í eigu íslenska ríksins, Pósturinn, tók þá einhliða ákvörðun að hætta að þjónusta blaðaútgáfu okkar með því að hætta að dreifa blaðinu. Það var ekki einu sinni í boði að borga hærra gjald sem flestir útgefendur hefðu tekið þegjandi. Fleiri landsbyggðarfjölmiðlar fengu sömu fréttir. Ríkisfyrirtækið Pósturinn þurfti að lækka kostnað í rekstrinum og eitt af því var að hætta að bjóða blaðaútgefendum blaðadreifingu. Við getum ekki talað um samfélagslega ábyrgð. Ríkisfyrirtækið var ekki að hugsa um það. Vilja helst ekki heldur koma bréfum til landsmanna. Nú skiptir mestu fyrir Póstinn að afgreiða pakka frá Alibaba.

En góðir hlutir gerast á skrýtnum tímum. Við þurftum í ljósi ástandsins, m.a. vegna minnkandi tekna á tímum Covid-19, að taka þá ákvörðun að hætta að prenta blaðið, alla vega á meðan það ástand varir. Þetta tækifæri höfum við notað til að þróa mun stærra og veglegra blað og viðtökurnar hafa verið frábærar. Lestur á rafrænu blaði er miklu meiri en við gerðum okkur vonir um og var í fyrsta rafræna blaðinu meiri en nokkru sinni fyrr. Við vonumst til að geta þróað það enn meira í stafrænu umhverfi. Möguleikarnir eru mjög miklir. Það er nóg pláss og við getum gefið okkar efni allt það pláss sem við viljum. Lesendur hafa tekið þessu vel og lesa núna blaðið rafrænt. Yfir 15 þúsund manns opnuðu rafræna útgáfu VF í síðustu viku. Ekki má gleyma því að margir vilja ekki blað inn um lúguna á veiru tímum. Nýtt rafrænt blað er snertilaust. 

Að lokum vil ég hvetja yngra fólk að hjálpa þeim eldri við að taka á móti þessum stafrænu breytingum. Hjálpið ömmu og afa, mömmu og pabba að lesa blaðið í spjaldtölvunni eða tölvunni. Sum þeirra þurfa kannski smá hvatningu og hjálp til þess.

Höldum áfram að berjast. Góðar stundir!

Páll Ketilsson