Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Samtakamáttur
Laugardagur 25. janúar 2020 kl. 08:24

Samtakamáttur

Lokaorð Margeirs Vilhjálmssonar

Á laugardaginn var skemmti ég mér með öðrum 700 Keflvíkingum á enn einu frábæru Þorrablóti. Þeir sem hafa veg og vanda að þessu blóti eiga mikinn heiður skilinn. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur og knattspyrnudeildin ákváðu fyrir nokkrum árum að sameina krafta sína í að halda alvöru Þorrablót. Það byrjaði ekkert rosalega vel. Nánast þurfti að gefa síðustu miðana til að ná 300 manns í húsið. Núna komast færri að en vilja. 

Þrátt fyrir góða skemmtun og enn betra eftirpartí var leiðin heim ekki sú skemmtilegasta. Alvöru umhleypingar, hífandi rok og grenjandi rigning. Reykjanesbrautin er ekkert grín í svona veðri. Hjólförin sem ná alla leið til Reykjavíkur eru full af vatni. Eins og að keyra eftir árfarvegi. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nokkrum dögum fyrir blótið fékk ég að slást í för með „Stopp - hingað og ekki lengra“ hópnum á fund hjá Vegagerðinni. Tilgangur fundarins var að fá að vita hvort rétt væri að Hafnarfjarðarbær drægi lappirnar í skipulagsmálum vegna Reykjanesbrautarinnar.  Sú var ekki alveg raunin. Málið snýst í grunninn um hver eigi að bera kostnaðinn af því að færa Reykjanesbrautina í nýtt vegstæði. Í nýja vegstæðinu þarf að byggja 4 akreinar, en í því gamla bara tvær. Kostnaðarmunurinn er 2 milljarðar. Við berum jú virðingu fyrir því að reynt sé að fara vel með skattpeningana okkar, en hvers virði er mannslíf?

Á sama tíma og við höfum beðið í 19 ár eftir efndum loforða þingmanna um tvöföldun Reykjanesbrautar hafa verið byggð og tekin í notkun Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Vaðlaheiðargöng, Norðfjarðargöng, Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarðsgöng. Heildarkostnaður við þessi göng eru litlir 60 milljarðar og umferðin í gegnum þau einn fjórði af því sem fer um Reykjanesbrautina á hverjum degi. Kostnaðaráætlun frá árinu 2016 gerði ráð fyrir því að tvöföldun frá Hvassahrauni að kirkjugarðinum í Hafnarfirði kostaði 6,3 milljarða. Fjóra til viðbótar myndi kosta að tvöfalda alla leið upp að flugstöð. 

Á Alþingi sitja 10 þingmenn Suðurkjördæmis: Páll Magnússon, Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Ari Trausti Guðmundsson, Oddný Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Vilhjálmur Árnason og Smári McCarthy. Þau sitja á þingi í krafti 29.000 atkvæða sem greidd voru í Suðurkjördæmi í kosningunum 2017. Á kjörskrá í Reykjanesbæ, Grindavík, Suðurnesjabæ og Vogum eru um 17.000 manns - jafn margir og slegist hafa í Stopp hópinn á Facebook. 

Það vill svo vel til að nú eru tæplega 18 mánuðir í kosningar. Í haust þurfa þingmenn sama hvaða flokki þeir tllheyra að leita umboðs kjósenda til að fá vinnu næstu 4 árin. Það er tími til kominn að Suðurnesjamenn standi saman og segi einum rómi. Stopp - hingað og ekki lengra. Það gengur ekki að okkur sé gert að bíða til ársins 2030 til að geta búið við ásættanlegt umferðaröryggi. 

Með samtakamætti getum við þakkað þingmönnunum dugleysið. En gefum þeim lokatækifæri á þessu vorþingi.

Við ætlum að keyra tvöfalda Reykjanesbraut alla leið - ekki seinna en haustið 2022. Þeir sem halda því fram að það sé ekki hægt, geta hætt strax.

Margeir Vilhjálmsson.