Pistlar

Röstin hefur gefið vel í gegnum árin
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 18. nóvember 2022 kl. 08:23

Röstin hefur gefið vel í gegnum árin

Það er að verða komið fram í miðjan nóvember og ennþá bólar ekkert á því sem kalla mætti vetur því að veðurfarið hefur verið ansi gott núna, hlýtt og fáir dagar þar sem maður hefur þurft að skafa bílrúðuna.

Þetta góða haust hefur gert það að verkum að handfærabátarnir hafa náð að róa og flestir á ufsann í röstinni, þá frá Grindavík og Sandgerði. Er þetta frekar óvenjulegt að geta róið svona langt fram á haustið á handfærum.

Veiðin hjá færabátunum er búin að vera mjög góð og verð á ufsanum, sem bátarnir eru flestir að eltast við, hefur verið mjög gott á fiskmörkuðum.

Ef við lítum á bátana það sem af er núna í nóvember og byrjum í Grindavík. Þar er t.d. Agla ÁR með 4,6 tonn í fjórum róðrum og af því er ufsi 4,4 tonn, Særós ST 3,9 tonn í fimm róðrum, Hafdalur GK 5,5 tonn í fjórum róðrum og mest 1,7 tonn og Líf NS 896 kg í einni löndun

Í Sandgerði er Guðrún GK með 5,5 tonn í fjórum róðrum, Kvika GK er með 1,3 tonn í þremur róðrum, Von GK 978 kíló í einni löndun, Geiri HU 610 kíló í einni löndun, Dímon GK 5,7 tonn í sex róðrum og mest 1,7 tonn og Arnar ÁR 7,2 tonn í fjórum róðrum og mest 2,3 tonn í róðri.

Í gegnum tíðina þá hefur Röstin, sem er svæði á milli Valahnúks þar sem Reykjanesviti er og að Eldey, gefið ansi vel í gegnum árin og þá mest af ufsa. Mjög margir bátar hafa stundað færaveiðar þar í gegnum árin og kannski þeirra allra þekktustu voru Svanur á Birgir RE og Kristján, eða Stjáni eins og hann var alltaf kallaður, sem var með Skúm RE.

Báðir þessir skipstjórar stunduðu veiðar með handfærum allt árið þau ár sem þeir gerðu bátana sína út – og er það þá tímabil frá um 1975 og fram að aldamótunum. Á þessum árum var eiginlega ekkert um það að útgerðarmenn stunduðu handfæraveiðar allt árið en það gerðu þessi tveir. Til að mynda árið 1982, eða fyrir 40 árum síðan, þá hófu bæði Svanur og Stjáni veiðar á bátum sínum í apríl og voru báðir á handfærum alveg fram í nóvemberlok.

Öll árin sem þeir gerðu út þá réru þeir frá Sandgerði og árið 1982 þá má segja að þeir hafi átt ansi gott ár. Birgir RE var með 202,7 tonn í 92 róðrum og stærsti mánuðurinn hjá honum var maí en þá landaði Birgir RE alls 51,5 tonnum í fjórtán róðrum, eða 3,7 tonn í róðri. Stjáni á Skúmi RE réri yfir jafn langt tímabil og félagi hans Svanur og var með 172 tonn í 85 róðrum, eða 2,1 tonn í róðri. Stærsti mánuðurin hjá honum var líka maí en þá landaði Skúmur RE 42 tonnum í ellefu róðrum, eða 3,8 tonn í róðri.

Margir eldri sjómenn, sem stunduðu sjóinn á þessum tíma, muna mjög vel eftir þeim Svani og Stjána því þeir voru iðulega á sömu slóðum og voru ekkert mikið fyrir það að hafa talstöðina í gangi.

En hvar eru þessir bátar í dag? Jú, Skúmur RE endaði söguna sína árið 2002. Arney ehf. hafði keypt bátinn og kvótann árið 1999 og síðan keypti Skinney Þinganes Arney ehf. og þá eignaðist Skinney Þinganes þennan þekkta bát, Skúm RE, og þar með urðu endalok hans.

Saga Birgis RE var eiginlega frekar svakaleg því 3. október árið 1987 voru þeir á leið í land og það var frekar þungt í sjóinn. Sævar Ólafsson, sá mikli snillingur, var þá skipstjóri á Reyni GK. Hann fylgdi bátnum inn í innsiglinguna en þar fékk Birgir RE mikið brot á sig og bátnum hvolfdi og áhöfn hans, tveir menn, komust upp á kjöl Birgis RE.

Sævar og áhöfn hans á Reyni GK sigldi Reyni GK á grynningar til þess að ná áhöfn Birgis RE um borð í Reyni og strandaði Reynir GK tvisvar á meðan á þessu stóð. Áhöfn Birgis tókst að bjarga og var þetta mikið þrekvirki hjá Sævar og hans áhöfn á Reyni GK.

Eftir þetta slys varð Birgir RE ónýtur en Svanur var nú ekkert á því að hætta útgerð því hann lét smíða fyrir sig plastbát, nokkuð stærri en gamli Birgir RE var. Sá bátur hét líka Birgir RE og gerði Svanur þann bát út til ársins 2004 – og þessi bátur er ennþá til í dag, heitir Kaldi SK 121 og er gerður út frá Sauðárkróki á net, grásleppu og færi.

Svanur og Stjáni voru þekktir um allt land fyrir það hversu fastheldnir þeir voru á færaveiðar, því þeir héldu sig við þetta veiðarfæri svo til öll sín útgerðarár,, réru svo til iðulega á sömu miðin og alltaf frá Sandgerði.