Sbarro
Sbarro

Pistlar

Mesta lífið í Sandgerðishöfn
Föstudagur 6. desember 2019 kl. 09:47

Mesta lífið í Sandgerðishöfn

Nóvembermánuður liðinn og síðasti mánuður ársins 2019 byrjaður, desember. Útgerðarmál frá Suðurnesjum voru frekar róleg frá höfnunum hérna og það var helst í Sandgerði sem eitthvað var um að vera. Þar fjölgaði línubátum nokkuð mikið frá því í byrjun nóvember en þá voru Guðrún Petrína GK, Addi Afi GK sem báðir stunda línuveiðar með bölum og Alli GK sem var með stokka, voru einu línubátarnir sem voru að róa frá höfnum á Suðurnesjum.

Síðustu dagana í nóvember gaf mjög vel til róðra og fiskuðu báðir þessir bátar mjög vel.  Addi Afi GK endaði sem næst aflahæsti báturinn í sínum flokki með um 40  tonn í ellefu róðrum og má geta þess að Addi Afi GK fór á sjóinn á hverjum degi í fimm daga og landaði á þeim dögum alls sautján tonnum.  Guðrún Petrína GK átti sömuleiðis góðan endi í nóvember, landaði alls 28 tonn í aðeins sjö róðrum og þar af fékk báturinn 9,3 tonn í síðstu tveimur róðrum sínum. Mest var báturinn með 5,4 tonn í einni löndun.

Bátum fjölgaði nokkuð mikið. Beta GK kom alla leið frá Siglufirði og byrjaði að róa frá Sandgerði og var með 9,4 tonn í tveimur róðrum og þar af sjö tonn í einni löndun. 

Katrín GK kom frá Rifi og reri frá Sandgerði og gekk mjög vel, var með 21 tonn í fimm róðrum og þar af 5,5 tonn í einni löndun. Katrín GK reri samfleytt í fimm daga. Alli GK var með 36 tonn í ellefu róðrum og mest 4,8 tonn í einni löndun. 

Stærsti línubáturinn sem kom suður var Óli á Stað GK en hann kom frá Neskaupstað og kom suður til Sandgerðis og reyndi fyrir sér víða t.d í Faxaflóa, á Hólakanti sem er skammt frá Eldey. Óli á Stað GK með 29 tonn í sjö róðrum. 

Dragnótabátarnir frá Suðurnesjum voru nokkuð góðir og  Benni Sæm GK endaði sem þriðji aflahæsti dragnótabáturinn á landinu í nóvember, var með 125 tonn í sextán róðrum og mest 31 tonn. Siggi Bjarna GK 89 tonn í fjórtán róðrum. Sigurfari GK 71 tonn í sjö, en báturinn landaði líka í Þorlákshöfn, og var hann að veiðum með suðurströndinni. 

Aðalbjörg RE landaði 51 tonni í tíu róðrum en hann byrjaði í Reykjavík og var komin í Sandgerði undir lok nóvember. Ísey ÁR var með 36 tonn í átta róðrum, af þeim afla var 6,3 tonnum landað í Grindavík,

Netaveiðin hjá bátunum var mjög léleg og má segja að hún hafi verið hörmung. Grímsnes GK reri og reri og var aðeins með 44 tonna afla í 23 róðrum. Þetta eru aðeins 1,9 tonn í róðri. 

Til samanburðar var Grímsnes GK með yfir 200 tonn í nóvember 2018 en þá var báturinn að mestu að veiða ufsa meðfram suðurströndinni.

Maron GK var með 22 tonn í þrettán róðrum en hann hætti síðan veiðum og fór í slipp í Njarðvík þar sem átti að mála bátinn og gera hann fínan og flottan.

Halldór Afi GK nítján tonn í nítján róðrum.  Hraunsvík GK fimmtán tonn í fjórtán róðrum, landað í Grindavík.  Sunna Líf GK ellefur tonn í þrettán róðrum.

Frystitogarnir lönduðu í nóvember. Baldvin Njálsson GK kom með 642 tonn til Hafnarfjarðar.  Tómas Þorvaldsson GK kom með 514 tonn til Grindavíkur. Hrafn Sveinbjarnarsson GK 440 tonn í einum róðri og Gnúpur GK 412 tonn í tveimur róðrum, allir að landa í Grindavík.

Enginn stór línubátur landaði á höfnum á Suðurnesjum og reyndar landaði heldur enginn togari eða togbátur því allir, bæði línu- og togbátarnir voru að landa fyrir austan og norðan og mest öllum aflanum var síðan ekið suður til Grindavíkur, Garðs og Sandgerðis til vinnslu.

Gísli Reynisson
aflafrettir.is