Reykjanes Optikk
Reykjanes Optikk

Pistlar

Margir landa í Sandgerði þegar vel gefur á bátinn
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 1. júlí 2022 kl. 10:06

Margir landa í Sandgerði þegar vel gefur á bátinn

Jónsmessunótt nýliðin og það þýðir að nú fer daginn hægt og rólega að styttast og við fáum myrkrið aftur. Í síðsta pistli skrifaði ég að Sóley Sigurjóns GK væri ekki kominn á veiðar en togarinn fór reyndar á veiðar um það leyti sem síðasti pistill var skrifaður og hefur landað sinni fyrstu löndun af rækju á þessu ári. Reyndar er togarinn ekki búinn að landa síðan í mars á þessu ári. Fyrsta löndun togarans var tæp 27 tonn og af því var rækja 13,2 tonn.

Þessi rækjulöndun Sóleyjar fer til vinnslu í Meleyri á Hvammstanga en þar er rækjuvinnsla sem Nesfiskur á. Grímsnes GK hefur verið að veiða rækju og lagt upp þar en báturinn er núna kominn til Njarðvíkur og hættur rækjuveiðum. Framundan hjá Grímsnesi GK er netaveiði en planið er að Grímsnes GK fari á veiðar á ufsa.

Aðeins einn bátur hefur verið á netaveiðum á ufsa, Máni II ÁR frá Þorlákshöfn, og er hann með 33 tonn í sjö róðrum í júní og mest 10,5 tonn í einni löndun. Máni II ÁR var á veiðum út frá Þorlákshöfn og var þó nokkuð af löngu í aflanum hjá Mána II ÁR.

Talandi um ufsann þá hafa handfærabátarnir verið að veiða mjög vel af honum. Hafa þá flestir verið á veiðum við Reykjanesvitann og áleiðis að Eldey, t.d. Guðrún GK 98 með 11,2 tonn í fjórum og mest 5,3 tonn, Gola GK 41 með tíu tonn í tíu róðrum og þar af ufsi 6,1 tonn, mest 1,5 tonn í löndun. Guðrún GK 401, sem er sómabátur, er með 8,6 tonn í fimm róðrum og mest 2,9 tonn, ufsi 7,8 tonn, Addi Afi GK 19,3 tonn í þremur og mest 7,4 tonn, Ragnar Alfreðs GK 14,5 tonn í þremur og mest 6,1 tonn og Von ÓF 15,6 tonn í átta og mest 3,7 tonn. Von ÓF hefur landað í Grindavík en hinir eru allir í Sandgerði.

Reyndar er mjög mikið um báta sem hafa verið að landa í Sandgerði en þegar gefur á sjóinn þá hafa verið upp í 40 bátar að landa þar á hverjum degi.

Aðeins einn bátur er á dragnótaveiðum og er það Ísey EA sem hefur verið að landa í Sandgerði og veitt nokkuð vel, kominn með 105 tonn í tólf róðrum.

Stóru línubátarnir frá Grindavík eru ekki margir á veiðum núna og þeir sem eru á veiðum eru helst að eltast við löngu og keilu. Sighvatur GK er kominn með 250 tonn í þremur róðrum og mest 98 tonn, Páll Jónsson GK 196 tonn í þremur og mest 85 tonn og Fjölnir GK 240 tonn í fjórum löndunum og mest 83 tonn.

Valdimar GK, sem er eini línubáturinn sem að Þorbjörn hf. gerir út, er kominn í slipp í Njarðvík og því er enginn línubátur frá Þorbirni hf. á veiðum núna um þessar mundir. 

Í Keflavík hefur rauður bátur verið og heitir sá bátur Þristur ÍS. Var hann á plógsveiðum í Faxaflóa og landaði alls 1,6 tonnum í þremur róðrum af kúfisk. Þessi bátur á sér smá sögu við Suðurnesin en þó helst frá Árskógssandi þar sem báturinn hét Særún EA og síðan, frá 1992, var báturinn á Patreksfirði og hét þar Brimnes BA. Særún EA kom oft suður á vetrarvertíð og vertíðina 1992 réri báturinn frá Sandgerði og Guðjón Bragason, eða Gaui Braga, var skipstjóri á bátnum en hann er er mikill netaskipstjóri og var t.d. undir það síðasta skipstjóri á Grímsnesi GK.