Max Norhern Light
Max Norhern Light

Pistlar

Lokaorð Örvars: Vel heppnuð Þorrablót
Laugardagur 8. febrúar 2020 kl. 07:39

Lokaorð Örvars: Vel heppnuð Þorrablót

Þorrablótin hérna fyrir sunnan eru nú óðum að klárast. Þessi stærri blót eru a.m.k. búin en einhver minni eru þó eftir. Það er með ólíkindum hversu vinsæl þorrablótin eru orðin og gróflega áætlað þá sóttu um 2600 manns þessi fjöfur stóru blót á Suðurnesjum hjá Keflavík, Víði, Grindavík og Njarðvík. Komust reyndar færri að en vildu enda uppselt á öll blótin og t.d. hjá Njarðvík hefði verið hægt að selja tvöfalt fleiri miða en smæð Ljónagryfjunnar hamlaði því. Það mun vonandi lagast 2022 þegar UMFN fær nýtt íþróttahús.

Stemmningin var allsstaðar afar góð og annálar voru flugbeittir, skemmtilegir og frábærlega vel unnir. Vonandi urðu engir sárir en ég veit um nokkra sem voru fúlir yfir því að vera ekki teknir fyrir. Það var alveg ljóst í ár að fólk var tilbúið að sletta ærlega úr klaufunum eftir erfiðan og vindasaman fyrripart vetrar og gerðu menn vel við sig í mat og drykk. Sumir kannski of vel í drykk en ef ekki á blóti hvenær þá? Það sem stendur þó upp úr er hittingur fólksins en sumir hittast einu sinni á ári og þá á þessum viðburðum. Ótrúleg stemmning enda er það staðreynd að hvergi skemmta menn sér betur en hérna fyrir sunnan.

Svona stór blót krefjast mikillar vinnu þar sem fjöldinn allur af sjálfboðaliðum íþróttafélaganna leggja hendur á plóginn og á mikið hrós skilið.  Ákveðin deyfð var komin í þessa skemmtilegu hefð en á árunum eftir hrun þá hafa þau (blótin) tekið all hressilega við sér hérna á Suðurnesjum sem er Garðmönnum að þakka en þeir riðu á vaðið með fyrsta stóra blótinu árið 2010 en þá mættu 700 manns í íþróttahúsið í Garðinum. Algjörir snillingar í Garðinum. Vil aftur hrósa öllu því fólki sem kom að þessum blótum á einn eða annan hátt, takk kærlega fyrir. Þetta bætir, hressir og kætir svo sannarlega í skammdeginu og fólk getur ekki beðið eftir þorrablótunum 2021.

Örvar Þór Kristjánsson.