Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Lítil lús en mikið vesen
Föstudagur 20. október 2023 kl. 06:18

Lítil lús en mikið vesen

Fréttir af veggjalúsafaraldri hafa verið áberandi í frönskum fjölmiðlum og víðar. Þessar litlu pöddur eru ansi skæðar og erfiðar viðfangs og því ekkert skrítið að fólki bregði við og fái ofsakláða bara við tilhugsunina um að lenda í þessum vágesti. Talið er að hún hafi skotið sér niður í 10% heimila í París og sé einkum að finna í lestum, í metróinu, á flugvöllum og í bíóum. Skólum hefur verið lokað, ríkisstjórnin hefur haldið neyðarfund, víða má sjá rúmdýnur sem fólk hefur losað sig við á gangstéttum borgarinnar og fólk er almennt frekar stressað yfir þessu.

Ég myndi segja að skalanum einn til tíu sé þetta vel yfir 25 í ógeðslegheitum. Tilhugsunin um litlar pöddur að skríða á sér á nóttunni er frekar vond, sérstaklega pöddum sem er erfitt að losa sig við. Það er víst þannig að eitrið sem vann á þessum ógeðispöddum fyrir tuttugu til þrjátíu árum og útrýmdi þeim næstum því, var svo baneitrað að það var bannað að nota það – og núna þegar eitrið er mun umhverfisvænna og ekki hættulegt fólki bítur það auðvitað ekki á þeim.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þar sem ég sit klæjandi og skrifa þennan pistil, einmitt um borð í lest sem ég tók metróið í, og mun fara í nokkrar fleiri lestir og flug í vikunni, væri ég alveg til í að taka sénsinn á gamla, góða eitrinu og sulla því sem víðast. Ég væri líka meira að segja frekar til í að skipta á þessu og Covid – við kunnum allavega á það.

En svo eru það þeir sem segja að þetta sé bara einhver almenn hystería, veggjalús hefur alltaf verið og verður alltaf til. Hún er kannski leiðinleg en hún drepur engan, ber ekki sjúkdóma á milli þannig að það gæti verið verra. Og ef glasið er hálffullt má líka fagna því að 90% heimila eru laus við þennan ófögnuð. Það er eitthvað!

Ríkisstjórnarfundurinn fyrrnefndi var frekar tíðindalítill og ekkert plan sett í gang.

Heilbrigðisráðherrann sagði bara að það væri engin ástæða til að panikera. Þá vitum við það. Panikið er kannski mest varðandi orðspor Parísar. HM í rugby stendur yfir í borginni og auðvitað verða Ólympíuleikarnir haldnir hér á næsta ári. Þar sem veggjalýs gera lítið til að skapa stemmningu fyrir fjölmennum viðburðum ætla ég að leyfa mér að vona að einhverjum detti í hug að dusta rykið af gamla góða eitrinu og klára þetta mál í eitt skipti fyrir öll!

Ég ætla allavega að hætta þessum skrifum núna þar sem konan sem situr á móti mér í lestinni hefur fylgst með mér klórandi mér alls staðar og er greinilega farið að klæja sjálfa!