Pistlar

Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
Myndin sýnir bókhald Skólasjóðs 1907–1908. Næstu fimmtán ár var ársveltan nálægt 600 til 1.400 krónur. Árslaun kennara voru rúmlega 400 krónur.
Sunnudagur 5. júní 2022 kl. 07:39

Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900

Kristindómur var aðalnámsgrein flestra skóla fram yfir aldamót 1900 og margir kennarar prestlærðir. Ögmundur Sigurðsson, Guðmundur Finnbogason og fleiri gagnrýndu þann þululærdóm, að kenna kverið mjög rækilega og koma börnunum þannig fram til fermingar.

Sigurður Jónsson, kennari, skrifaði um þvingunarnám, að börnin skilji ekki eitt einasta orð og verði leiðitöm, falli í vantrúaröldu sem þá gekk yfir landið. Slíkt ístöðuleysi stafi af rangri kristindómsfræðslu, kverkennslu. Biblíusögur væru fallnar til að ráða bót á þessu – að segja léttar, skiljanlegar sögur en guðfræðin í kverinu kæmi síðar. Vaxandi gagnrýni kom einnig frá prestum, að kristindómurinn væri kenndur eins og nauðung en ekki daglegt líf. Snemma á 20. öld hvarf svo kverið að mestu úr skólanáminu og vék þar fyrir biblíusögum en kirkjan sá sjálf um fermingarfræðslu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við fermingarfræðslu fyrr á öldum tíðkaðist að raða börnunum upp í kirkjunni eftir kunnáttu. Í fyrstu barnaskólunum mun slík uppröðun í skólastofur hafa tíðkast. Um aldamótin 1900 voru einkunnir gefnar daglega í mörgum barnaskólum. Sumum kennurum mislíkaði það en mörgum foreldrum líkaði það vel, fyrir metnaðar sakir. Svo lögðust daglegar einkunnir af en gefin einkunn í viku hverri eða mánuði og börnunum stundum raðað eftir því. Engar sögur fara af svo tíðri einkunnagjöf og uppröðun í skólunum á Vatnsleysuströnd en haldin voru vorpróf og miðsvetrarpróf, þar sem annars staðar. Gefið var í tölum (1–8) eða í orðum. Alltaf voru prófdómarar, stundum voru það prestar. Vorið 1909 var Ögmundur Sigurðsson prófdómari á Vatnsleysuströnd, þá orðinn skólastjóri Flensborgarskóla.

Fyrstu áratugi Suðurkotsskóla voru börnin í einni stofu og einn kennari. Í pistli í Ísafold 1879 (https://timarit.is/files/9317902) gælir Stefán við þá hugmynd að bæta við kennara og skólastofu og kenna í tveimur bekkjum en til þess skorti fé.

Fyrstu ár skólans voru kennslugreinar lestur, skrift, reikningur, kver, biblíusögur og söngur. Þeir, sem best voru að sér áttu þess kost að læra að auki landafræði, sögu, réttritun og dönsku. Handavinnukennsla var í boði fyrir stúlkur en aðsókn var dræm og féll niður sum árin. Kennt var kl. 10 til 14:30 sex daga vikunnar. Í þá daga var hver kennslustund 60 mínútur. Kennt var 1. október til 31. mars.

Fyrsta veturinn, 1872–1873, voru 22 börn í almennri kennslu og átta unglingar í sérstakri kennslu. Þá voru tíu börn heimilisföst í skólanum. Mörg voru styrkt af Thorkilliisjóði. Guðmundur í Landakoti kom vikulega og kenndi söng, stundum með orgelleik í kirkjunni.

Annan veturinn, 1876–1877, voru kennslugreinar: Lestur fimm stundir á viku, skrift fimm stundir, lærdómsbók (kverið) sex stundir, biblíusögur fjórar stundir og reikningur fjórar stundir. Að auki var sex börnum kenndur söngur daglega í sambandi við bænir sem þau voru látin fara með.

Veturinn 1877–1878 voru 24 nemendur í „almennri kennslu“ og auk þess voru fjórir nemendur sem nutu „sérstakrar kennslu“ (sbr. 13. grein reglugerðar skólans frá 1872). Í skólanum voru haldin inntökupróf að hausti, miðsvetrarpróf 23. desember og vorpróf í lok mars. Ætlunin var að bæta við landafræði og réttritun næsta vetur. Kennslufyrirkomulag var svipað þessu næstu ár.

Veturinn 1895 voru 37 börn í skólunum, tíu til fjórtán ára. Kenndu þeir Sigurjón Jónsson í Suðurkoti og Jón G. Breiðfjörð í stofunni á Þórustöðum. Það ár hafði verið komið fyrir á bæjum í grennd við Brunnastaði þremur krökkum úr Njarðvíkum. Séra Árni var skólanefndarformaður og mun hafa ráðið mestu. 

1903–1904 var kennt bæði í Norður- og Suðurkotsskóla. 

Í Suðurkoti kenndi Þórður Erlendsson 28 börnum á aldrinum sjö til fjórtán ára, í tveimur deildum. Í eldri deild var kennt kver, biblíusögur, lestur, skrift, reikningur, saga, landafræði, náttúrusaga og danska en í yngri deild fimm fyrsttöldu greinarnar. 

Í Norðurkoti kenndi Sigurgeir Sigurðsson nítján börnum á aldrinum átta til fjórtán ára. Kennsla fór fram á sama hátt og í Suðurkoti, nema hvað Sigurgeir bauð nemendum sínum ekki upp á dönsku. 

Haustið 1907 kenndi sr. Árni Þorsteinsson tuttugu nemendum í Norðurkoti. Í nýendurbyggðu skólahúsinu í Suðurkoti kenndi Ólafur Guðjónsson 21 nemenda. Ólafur var gagnfræðingur frá Flensborg 1897 og hafði áður kennt í heimasveit sinni, Grímsnesi.

Veturinn 1908–1909 voru sömu kennarar. Ólafur fékk berkla, varð að hætta kennslu um veturinn og lést um vorið og annar fenginn í hans stað. Sótthreinsa þurfti hús og búnað og voru bækur Lestrarfélagsins Baldurs lokaðar niðri í kössum í hálfa öld, af ótta við smit.

Í Suðurkoti voru sextán nemendur, sjö drengir og níu stúlkur, tíu til fjórtán ára (sem þá var orðinn skólaskyldualdur). Námsgreinarnar voru: Lestur (þrjár stundir á viku), skrift (fjórar stundir), réttritun (þrjár stundir), náttúrufræði (fjórar stundir), kristinfræði (sex stundir), landafræði (þrjár stundir), saga (þrjár stundir), og reikningur (sex stundir). Eldri börnin (tólf til fjórtán ára), sem voru sjö, lærðu allar þessar greinar en hin yngri (tíu til ellefu ára), ásamt tveimur af eldri börnunum, lærðu móðurmálsgreinarnar, náttúrufræði, kristinfræði og reikning. 

Í Norðurkoti voru nemendur nítján, allir á eldra stiginu, sjö drengir og tólf stúlkur. Námsgreinar voru hinar sömu nema Árni kenndi jafnframt söng og leikfimi. Árni segist hafa varið til söngkennslu hálfa til heila klukkustund tvisvar í viku, ýmist með eða án hljóðfæris. Leikfimin var einkum stökk, glímur og ýmsar líkamsæfingar, göngulag og fleira, eflaust að hluta til úti, því skólastofan var aðeins u.þ.b. 12 m2.

Árið 1909 styrkti Thorkillisjóður 133 skólabörn, þar af voru 52 í Reykjavík og ellefu í Vatnsleysustrandarhreppi. Styrkurinn var yfirleitt tuttugu krónur á barn á ári, þar til 1913 að styrkir þessir lögðust af.

Myndin sýnir bókhald Skólasjóðs 1907–1908. Næstu fimmtán ár var ársveltan nálægt 600 til 1.400 krónur. Árslaun kennara voru rúmlega 400 krónur. 

Af tekjum komu um 400 krónur úr landssjóði, 300 úr hreppssjóði og 200 úr Thorkilliisjóði meðan hann styrkti fátæk börn. Frá 1911 átti skólinn þrjár jarðir og fengust af þeim um 130 krónur árlega í leigu. Mörg árin fengust 5 til 70 krónur í leigu skólahúss fyrir skemmtanir, m.a. frá Ungmennafélaginu 1909–1915 en mikið af þeim tekjum fór í ræstingu. Af lánum vegna byggingar skólahúsanna þurfti að greiða árlega 100 til 200 krónur. Kol til kyndingar kostuðu sitt, 50 til 200 krónur á ári. Bókhaldskostnaður var átta krónur á ári.

Heimildir: Gunnar M. Magnússon. Saga alþýðufræðslunnar. Greinar um skólann á Vatnsleysuströnd í Faxa 1982 og 1990.
Stefán Thorarensen. Skýrsla um skólahald 1876–1879. Ísafold. 29.3.1879. Skólasjóðsbók barnaskólanna á Vatnsleysuströnd 1907–1924. Kennaratal á Íslandi.